136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[14:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp á sér mjög langa forsögu og sú forsaga teygir sig allmörg ár aftur í tímann. Það var þannig að íslensk stjórnvöld reyndu sitt ýtrasta og freistuðu þess að fá að halda sig við það fyrirkomulag sem hér hafði verið. Málið er hins vegar þannig að búið er að gera algjörar grundvallarbreytingar á matvælalöggjöf Evrópusambandsins. Þær breytingar fela það í sér að það fyrirkomulag sem við höfum búið við og vorum ágætlega sátt við í sjálfu sér gengur einfaldlega ekki. Þannig er litið á að hér sé um að ræða heildstæða löggjöf og við setjum þess vegna útflutningshagsmuni okkar í áhættu ef við göngum ekki í það að uppfylla þessi skilyrði. Þessi matvælalöggjöf er að mínu mati að grunni til mjög vönduð og er gerð út frá sjónarmiðum neytenda til þess að tryggja heilnæmi þeirra afurða sem verið er að versla með.

Þegar við stöndum frammi fyrir þessu þá er það markmið okkar að reyna að tryggja innlenda búvöruframleiðslu. Og hvernig gerum við það í ljósi þessa frumvarps sem verið er að leggja til? Jú, það er í fyrsta lagi gert með þeim hætti, eins og ég gerði grein fyrir hér í framsöguræðu minni, að við erum að styrkja eftirlitsþáttinn sjálfan. Í sjálfu sér taldi ég að nokkuð vel væri fyrir því séð í því frumvarpi sem við lögðum fram á síðastliðnu vori en eftir að hafa farið yfir þær umsagnir sem bárust, ekki síst frá Bændasamtökunum, taldi ég ástæðu til að styrkja þennan þátt málsins sérstaklega og það er gert í frumvarpinu eins og ég gerði grein fyrir.

Síðan er það auðvitað hitt málið sem er þá jafnframt stóra málið. Það er það, eins og ég nefndi líka í ræðu minni, að gert er ráð fyrir því að engar breytingar verði gerðar á tollaumhverfi landbúnaðarins og þannig að varnir landbúnaðarins felast annars vegar í þessu ákveðna ákvæði sem er í frumvarpinu sem tryggir það að hingað til lands verði ekki fluttar óheilnæmar afurðir. Og í öðru lagi hitt að við munum halda áfram þeirri tollvernd sem hefur verið í gildi og hefur verið við lýði gagnvart landbúnaðinum.