136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[14:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þær reglugerðir sem ég vísaði til og sýndi raunar hér í eintaki eru reglugerðir sem hafa verið sendar sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Þetta eru reglugerðir eins og þær koma frá þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins bæði í enskri og íslenskri útgáfu þeirra. Það er auðvitað hægt að fara yfir þær ef menn telja ástæðu til þess og það er á grundvelli þessara reglugerða sem frumvarpið er samið og lagt fram eins og ég hef þegar vikið að.

Munurinn á löggjöf okkar og þeirri sem Norðmenn hafa notað er sá að við erum með miklu nákvæmari löggjöf vegna þess að við teljum ekki eðlilegt að afhenda þetta vald með sama hætti til framkvæmdarvaldsins eins og þykir eðlilegt í lagapraxís Norðmanna. Þetta er lagapraxís sem hefur verið að ryðja sér til rúms hjá okkur og ég held að sé til fyrirmyndar.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði um tollana þá er það rétt að áður en ég kom í ráðuneyti landbúnaðar var tekin ákvörðun um að lækka tolla á ýmsum landbúnaðarvörum. Ég á ekki von á að sú ákvörðun verði tekin til baka. Mjög háir tollar eru á landbúnaðarvörum okkar og þegar menn ræddu það síðastliðið vor vísuðu flestir fyrst og fremst til tolla á ferskum kjúklingabringum. Annað töldu menn almennt vera fullnægjandi en varðandi fersku kjúklingabringurnar mátti kannski segja að það gæti verið umdeilanlegt. Ég hygg þó, ekki síst í ljósi þeirra gengisþróunar sem orðið hefur, að við séum með mjög fullnægjandi tollavernd fyrir okkar landbúnað, reyndar svo mikla að undan því er kvartað. Til að mynda í skýrslu Samkeppniseftirlitsins, sem kom út fyrir ekki löngu síðan, var vikið mjög að því að þessir tollar héldu uppi matarverði í landinu. Ég er að vísu ósammála því af því að ég styð þá tollvernd sem landbúnaðurinn á að hafa. (Forseti hringir.) Þetta er auðvitað gert vegna þess að við viljum tryggja búvöruframleiðslu okkar og það gerum við bæði með (Forseti hringir.) traustri matvælalöggjöf, eins og hér er verið að lögfesta, og enn fremur tollumhverfinu.