136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[14:43]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Það er svo sem eftir öðru að það eru fáir þingmenn hér í þingsalnum til að ræða þessi mál. Það er auðvitað mjög bagalegt hversu fáir þingmenn sýna þessu áhuga. Það er svo sem eins og ýmislegt annað sem við erum að fást við þessa daga, það er ýmislegt skrýtið við vinnubrögð Alþingis.

Evrópusambandið setur nú þær skyldur á okkur, samkvæmt því sem ríkisstjórnin segir, að uppfylla samninga um innflutning á fersku kjöti. Við verðum að hafa landið okkar galopið fyrir því þrátt fyrir að ýmsir vari við því út frá margvíslegum forsendum og þá kannski ekki síst hvað varðar heilbrigðisvottorð. Ágætur prófessor, Margrét Guðnadóttir sem er prófessor í sýklafræði, hefur varað mjög eindregið við því að við förum þessa leið.

Þegar við erum komin í þá stöðu að þurfa að uppfylla þessa skyldu er eins og ekki séu nein rök lengur fyrir því, það bara skal gert. Þrátt fyrir að við brjótum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið hvað varðar frjálst flæði peninga út af þeim lögum sem sett voru í haust, skal þetta uppfyllt. Ég held að ef við gætum frestað því að uppfylla þessi lög um eitt ár mundum við strax bæta stöðu bænda verulega. Eftir að við skrifum undir samninginn höfum við 18 mánuði til þess að laga okkur að þessum lögum. Ég legg því til, eins og ég sagði áðan í andsvari við hæstv. ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðarmála, að frumvarpinu verði frestað um eitt ár a.m.k., að við skoðum þessi mál í ljósi stöðu lands okkar og þjóðar eftir eitt ár.

Það sem mér finnst verra við þetta er að alltaf er verið að nota sjávarútveginn sem einhverja grýlu til að knýja á um þetta. Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar í hendurnar um það. Margir ágætir menn, m.a. úr sjávarútvegi, komu á fund sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar til að ræða þetta. Við spurðum forstjóra í sjávarútvegsfyrirtækjum, sem tengjast reyndar líka landbúnaðinum, um þessi mál. Þeir könnuðust ekki við að hafa orðið fyrir óþægindum, þvingunum eða þrýstingi. Maður áttar sig því ekki alveg á því á hvaða leið ráðuneytið er í þessu.

Síðan er verið að tala um viðbótartryggingar varðandi sjúkdóma og margt fleira. En það er auðvitað jákvætt að í íslenskum landbúnaði eru ýmsar nýjar og góðar hugmyndir, t.d. hugmyndin frá haga til maga, sem er mjög góð, eins heimaslátrun og síðast en ekki síst hafa bændur verið með bændagistingu. Kornrækt er líka að hasla sér völl í landbúnaði og margt annað mjög gott hefur verið gert þar og lofar góðu. Við megum því ekki leggja svona hindranir fyrir stéttina.

Búið er að fara í búvörusamningana og breyta þeim, bændur fá ekki þær hækkanir sem ákveðnar voru samkvæmt samningnum. Það er ekki á einu sviði, það er nánast á öllum sviðum sem verið er að bregða fæti fyrir bændastéttina. Ég skil ekki að við skulum leggja fram þetta frumvarp þegar við þurfum virkilega á því að halda að skapa störf fyrir Íslendinga, fólk er að missa atvinnuna. Ég tel að við hefðum betur látið það kyrrt liggja a.m.k. í eitt ár.

Eitt í þessu frumvarpi snýr að dýralæknum og dýralækningasvæðum. Ég á voðalega erfitt með að skilja þegar verið er að setja lög eins og þessi, um frjálsan innflutning á fersku kjöti, að þar skuli vera eitthvað sem snýr að dýralæknum. Ég gæti fallist á það að eðlilegt væri ef um væri að ræða einhverjar reglugerðir sem dýralæknar þyrftu að fylgjast með og það væri á þeim grundvelli. — Nei, þetta um staðsetningu og fjölda dýralækna á ákveðnum svæðum. Þessi viðbót er eins og skrattinn úr sauðarleggnum í frumvarpinu.

Í engu ráðuneyti kemur jafnoft fyrir að svona gjörólík mál eru í sama frumvarpi. Verið er að tala um áframeldi í fiskeldi en inn í það frumvarp kemur svo líka að frestað er gildistöku eða breytingu á lögum um kvóta á smábátum um þrjú ár. Ég átta mig ekkert á því og finnst þetta vera svo gjörsamlega ólík mál að ekki gangi upp að hafa þau í sama frumvarpi. Fleiri frumvörpum man ég eftir sem verið hafa með þessum hætti. Það er ótrúlegt en slíkt virðist koma oftar fyrir í þeim frumvörpum sem samin eru í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og sem við erum í stimplunardeildinni í þinginu fáum að kvitta upp á.

Við höfum verið með sennilega eitt besta matvælaeftirlit í Evrópu. Það kemur m.a. af því að við búum á eyju norður í hafi og höfum átt betra með að verjast ágangi smitsjúkdóma og öðru þess háttar í landbúnaði okkar. Þar af leiðandi hefur gæðastuðull og gæðaeftirlit verið með því besta sem gerist. Við eigum að reyna að halda því áfram.

Þetta frumvarp gerir ráð fyrir mörgum reglugerðum. Við höfum ekki séð þær en hæstv. ráðherra segir þó að þær séu á leiðinni til okkar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sem fjallar um þessi mál og þar munum við sjá hvernig reglugerðirnar líta út. En það eru kaldar kveðjur til landbúnaðarins á Íslandi sem við sendum með þessu frumvarpi. Það er ekki nóg að við séum búin að fara inn í búfjársamninginn sem mun bitna mjög á bændum. Þessir tveir ríkisstjórnarflokkar hafa mjög misjafnar skoðanir og álit á því hvernig íslenskur landbúnaður eigi að vera yfir höfuð og er mikill ágreiningur þeirra í milli um það. Talað er um að verið sé að ríkisstyrkja íslenskan landbúnað.

Það má eflaust færa rök fyrir því. Við notum beingreiðslur og framleiðslustyrki upp á u.þ.b. átta milljarða á ári til þess að halda því gangandi. Á sama tíma og við erum að vesenast yfir þessu erum við með einhvern mesta ríkisstyrk allra þjóða í heimi sem snýr að sjávarútvegi með því að úthluta íslenskum útgerðarmönnum veiðiheimildum ókeypis, leyfa þeim að veðsetja og leigja innan ársins og selja varanlegri sölu.

Til gamans má geta þess að leiguverðið út á þau 30 þúsund tonn af þorski sem úthlutað var fyrir viku síðan er á milli sjö og átta milljarðar sem við færum útgerðinni beint í styrk. Fyrir einu og hálfu ári síðan hefði verðið og verðgildi þessara 30 þúsund tonna verið 120 milljarðar sem hefði verið sú tala sem þeir gátu notað sem viðmið. En í dag mundi veðhæfni útgerðarinnar reyndar ekki hafa lagast nema um helming eða innan við helming af þessu, eitthvað á bilinu 50–60 milljarða, við þessa gjöf til sægreifanna. Þegar við berum saman atvinnugreinar, annars vegar landbúnaðinn sem fær kannski nálægt átta milljörðum í beingreiðslur sem eru beinlínis notaðar til þess að laga og lækka matvælaverð til neytenda þannig að almenningur í landinu sem telur sig borga þessar niðurgreiðslur og beingreiðslur fær til baka, og hins vegar sjávarútveginn, finnst mönnum sjálfsagt — og kannski þeim sem býsnast hafa mest yfir þessum styrkjum í íslenskum landbúnaði, þ.e. samfylkingarfólkinu — og gerir það með glöðu geði að styrkja útgerðarmennina. Aðeins þessi 30 þúsund tonn eru svipuð upphæð í leigutekjur og síðan til viðbótar eru möguleikar á auknum veðsetningum út á gjafakvótann frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ríkisstjórnarflokkunum.

Bændur eiga í miklum erfiðleikum. Verið er að tala um að 30–40% bænda séu tæknilega gjaldþrota og eins og hv. þm. Atli Gíslason benti á áðan er mjög líklegt að margir þeirra verði í mjög miklum erfiðleikum með að borga virðisaukaskatt sinn á næsta ári. Þeir verða sjálfsagt sóttir af sýslumanninum á Selfossi sem gerir út á að sækja fólk og ná því til að greiða upp skuldir sínar. Það er náttúrlega bara skammarlegt athæfi og hluti af því sem við ættum að vinna að er setja sýslumönnum lög og reglur um að þeir geti ekki hagað sér eins og ætlunin var að gera þótt sýslumaðurinn á Selfossi hafi hætt við áform sín um stundarsakir vegna afskipta dómsmálaráðherra.

Bændastéttin á eftir að gjalda fyrir þann mikla ágreining sem er á milli stjórnarflokkanna um landbúnaðarmál og verður eflaust til þess að þrýst verður á að klára þetta mál núna fyrir vorið. Ég harma það og eins og ég sagði í andsvörum við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra áðan hvet ég ríkisstjórnina og ríkisstjórnarflokkana til að draga frumvarpið til baka og nota næsta ár til að skoða hver okkar staða verður, hvort við erum þá á leiðinni áfram veginn og hvort við höfum möguleika til þess að skoða málið aftur í breyttu umhverfi fyrir okkur öll og kannski sérstaklega bændastéttina. Við þurfum að skoða hvort þetta mál verður enn ein byrðin á Bændasamtökin og okkur sem neytum landbúnaðarafurða, íslensku þjóðina alla, hvort þessi ákvörðun íþyngi öllum þegar upp verður staðið.