136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var athyglisvert að í andsvari hv. þm. Steinunnar V. Óskarsdóttur vísaði hún til einhvers rökstuðnings eða einhverrar lýsingar hæstv. forsætisráðherra á þeim faglegu vinnubrögðum sem átt hefðu sér stað við undirbúning þessa frumvarps. Ég var hér í salnum og hlustaði á ræðu hæstv. forsætisráðherra og þar kom bara fram fullyrðing um að faglega hefði verið staðið að málum en engin lýsing á því hvernig sú faglega vinna kom fram, ekki nokkur. Það var bara sagt: Þetta var allt faglega unnið og við leituðum til færustu sérfræðinga. Hvar liggur það fyrir? Hvar kemur það fram? Hvar stendur það í stjórnarfrumvarpinu, greinargerð með því eða lýsing á því hvernig að þessu máli var staðið?

Það er auðvitað ekkert þannig sem málum var háttað. Það er auðvitað þannig að tekin var breytingartillaga sem þingmenn Samfylkingarinnar lögðu fram við meðferð málsins árið 2001 og einu eða tveimur atriðum hnikað til og breytingartillögunni svo skellt fram. Það er ekkert faglegt mat þarna á bak við, þetta er bara pólitískur leikaraskapur.