136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:04]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir framsöguna með því frumvarpi sem hér er lagt fram, frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands.

Ég hef hlustað á það sem af er umræðunni með nokkurri athygli og það vakti sérstaka athygli mína hvernig þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa kosið að fara í þetta mál. Til að mynda kemur varaformaður Sjálfstæðisflokksins í andsvari við hæstv. forsætisráðherra. Kemur þá í ljós að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa farið í söguskoðun og leitað í gömlum ræðum hæstv. ráðherra og hugsanlega annarra til þess að reyna að finna einhverjar „formúleringar“ um Seðlabankann sem hægt er að vísa til núna og segja: Þessir ágætu ráðherrar hafa skipt um skoðun: Þetta gerði varaformaður Sjálfstæðisflokksins og segir svo hér, eftir að hafa vísað í ummæli hæstv. forsætisráðherra frá því fyrir tíu árum síðan eða svo: Hvað hefur breyst?

Hvað hefur breyst? Hvar hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið ef hann hefur ekki orðið var við að bankakerfið er hrunið? Það er margt sem hefur breyst í íslensku samfélagi á undanförnum mánuðum. Við stöndum í allt öðrum sporum en við gerðum fyrir örfáum mánuðum síðan, að ekki sé talað um fyrir mörgum árum, þannig að tilvitnanir í gamlar ræður úr þingtíðindum í hæstv. forsætisráðherra eða aðra eru algjörlega marklausar við þær aðstæður sem við erum í núna. Við erum að taka á þessum málum (REÁ: Tala menn markleysu hér á þingi?) út frá allt öðrum forsendum en áður hafa verið þannig að ég bið nú menn að (REÁ: Er þá gamla breytingartillagan enn í gildi?) gera sér grein fyrir því að við stöndum í allt öðrum sporum. Þjóðin sjálf gerir kröfur um að tekið sé á málefnum bankakerfisins, eftirlitsstofnana, og það er þegar byrjað að gera það að vissu marki. Hér er verið að leggja til breytingar á lögum um Seðlabankann, ekki síst til þess að endurvekja það traust og þann trúnað sem eru nauðsynleg og óhjákvæmileg í samskiptum Seðlabankans og við stjórn peningamála milli Seðlabankans og stjórnvalda og við þjóðina sjálfa.

Hér hafa sumir hverjir kosið að leggja út af þessu máli þannig að þessu sé sérstaklega beint gegn einhverjum tilteknum einstaklingum. Það er auðvitað ekki þannig að hér sé verið að leggja einhverja tiltekna einstaklinga í einelti eins og hefur mátt skilja á umræðunni. En vissulega eru einstaklingar á bak við þau störf og þær stöður sem verið er að tala um og hið sama átti auðvitað við um Fjármálaeftirlitið. (KÞJ: Hefur formaður starfsmannafélagsins rangt fyrir sér?) Það sama átti við um Fjármálaeftirlitið þar sem bæði forstjóri Fjármálaeftirlitsins og stjórnin kusu að víkja, ekki endilega vegna þess að þeim hafi orðið á í messunni, það kann vel að vera að eftirlitsstofnanirnar hafi brugðist að einhverju leyti, heldur ekki síst vegna þess sem ég nefndi að það væri mikilvægt að endurheimta traust. Það á við inn á við í okkar samfélagi, það á líka við út á við gagnvart umheiminum og alþjóðamálunum.

Mér segir svo hugur eftir að hafa hlustað á málflutning sjálfstæðismanna það sem af er þessari umræðu að þeirra lína verði sú að reyna að tefja þetta mál eins og kostur er. (REÁ: Við höfum ekki svoleiðis línu.) Mér segir svo hugur, sagði ég. (REÁ: Margur heldur mig sig.) Það kann vel að vera en mér segir svo hugur að það verði línan sem Sjálfstæðisflokkurinn rekur hér og þá segi ég bara: Það er ágætt að hafa það uppi á borði og það er ágætt að sú lína sé ljós þegar við göngum til kosninga eftir nokkrar vikur.

Allt um þetta, meginatriði í þessu máli er: Getum við hér á hv. Alþingi orðið sammála um meginefni þess frumvarps sem hér liggur fyrir, að breyta yfirstjórn Seðlabankans þannig að þar verði einn bankastjóri sem skipaður er af forsætisráðherra? Það hefur verið nokkuð nefnt hér hvort eðlilegt sé að hann sé skipaður af forsætisráðherra eða hvort bankaráðið ætti að gera það. Mér finnst t.d. koma til álita að skoða það á vettvangi þeirrar nefndar sem fær þetta mál til umfjöllunar hvort bankaráðið ætti að vera umsagnaraðili um þær umsóknir sem berast um embætti seðlabankastjóra, það kann vel að vera ein leið. Hér hefur verið vakið máls á því að gerð sé krafa um að seðlabankastjóri hafi lokið meistaraprófi í hagfræði og einhverjir hafa spurt: En hvað ef viðkomandi hefur doktorspróf, er hann þá ekki hæfur? Ég held að þetta sé efnisatriði sem þarf að skoða betur á vettvangi. (ArnbS: Það var ekki spurningin.) Þetta er efnisatriði sem ég tel að sé eðlilegt að sé skoðað á vettvangi nefndarinnar hvort gera á strangari kröfur en frumvarpið gerir ráð fyrir eða hvort skýra þarf betur hvað hér er nákvæmlega átt við. Ég hef skilið þetta þannig að hér sé gert ráð fyrir því að viðkomandi hafi lokið meistaraprófi í hagfræði eða sambærilegri menntun eða að sjálfsögðu ef hún er meiri þá ... (Gripið fram í: Þetta er ekki sambærileg ...) Nei, ég geri mér grein fyrir því, hv. þingmaður, og þess vegna sagði ég að ég teldi að þetta efnisatriði ætti að skoða á vettvangi nefndarinnar því að ég tel að hér þurfi að skýra betur hvað nákvæmlega er átt við. (BÁ: Spurningin var: Af hverju ekki doktorspróf?)

Herra forseti. Þeir eru eitthvað órólegir hér hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins undir þessari umræðu.

(Forseti (KÓ): Forseti biður um að menn hafi hljóð.)

Annað efnisatriði sem mér finnst sjálfsagt að við skoðum örlítið er ákvæðið í 3. gr. um að seðlabankastjóri sé skipaður til sjö ára og það megi endurskipa hann einu sinni. Ég velti fyrir mér hvort þessi tími sé hugsanlega óþarflega langur. Sumir segja að nauðsynlegt sé að það sé talsverð festa í þessu starfi þannig að þetta sé eðlilegur tími. Ég ætla ekki að hafa neina sérstaka fyrirframskoðun á því efnisatriði en mér finnst sjálfsagt að það verði rætt á vettvangi nefndarinnar og kallað eftir upplýsingum um það hvernig þessum málum er háttað annars staðar.

Ég fagna sérstaklega ákvæði sem 4. gr. gerir ráð fyrir um skipan peningastefnunefndar sem tekur ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum. Hér er lagt til að hún sé skipuð fimm manns. Þrír eða meiri hluti nefndarinnar komi innan úr bankanum sjálfum og tveir utanaðkomandi sérfræðingar þar til viðbótar.

Ég vil taka það fram að ég er sáttur við að meiri hluti nefndarinnar komi úr bankanum sjálfum. Við megum ekki gleyma því að í Seðlabankanum er mikil þekking og reynsla á efnahagsmálum og peningamálum og að sjálfsögðu á að nýta hana. Það má ekki gera lítið úr starfsfólkinu sem þar starfar og hefur mikla reynslu þannig að ég er sáttur við þetta ákvæði eins og það er lagt hér til í 4. gr. frumvarpsins.

Ég ætla ekki að blanda mér í umræðuna sem orðið hefur um bréfaskipti hæstv. forsætisráðherra við bankastjórn Seðlabankans. Ég tel þó að eðlilegt hafi verið að hæstv. forsætisráðherra stæði þannig að málum og gerði grein fyrir því að ríkisstjórnin fyrirhugaði að leggja fram frumvarp um þetta efni sem hefði í för með sér breytingar á yfirstjórn Seðlabankans þannig að þeim væri ljóst hvert stefndi í því efni. Að sjálfsögðu verða þeir að gera það upp við sig hvernig þeir bregðast við því en mér finnst að sjálfsögðu eðlilegt að erindi frá forsætisráðherra sé sinnt hver sem í hlut á.

Í heildina litið er afstaða mín sú að ekki sé eftir neinu að bíða að koma þessu máli til umfjöllunar á vettvangi nefndar. Nefndin mun að sjálfsögðu vanda vinnuna við það. Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru ekki flóknar í sjálfu sér og ég held að þær liggi býsna vel fyrir. Auðvitað geta menn kallað eftir einhverjum frekari upplýsingum eða skýringum. En að mínu mati er mikilvægt að eyða þeirri óvissu sem hefur verið um yfirstjórn Seðlabankans um nokkuð langt skeið. Það var verulegur ágreiningur eins og kunnugt er í fyrri ríkisstjórn um málefni Seðlabankans og jafnvel eru bókanir á vettvangi ríkisstjórnarinnar sjálfrar um það efni eins og hér hefur verið upplýst. Ég held því að það sé mjög mikilvægt að eyða óvissunni og skapa ró um starfsemi Seðlabankans. Ég tel að það frumvarp sem hér er lagt fram sé liður í því að skapa þá einingu og ró sem þarf í Seðlabankanum sjálfum inn á við því að starfsfólki bankans er ekki gerður greiði með þeim óróleika sem ríkir um Seðlabankann. Það þarf að skapa ró um starfsemina og það þarf líka að endurvekja traustið á Seðlabankanum og yfirstjórn hans meðal þjóðarinnar.