136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:21]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem fyrst og fremst hér upp í andsvar vegna ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, mér þótti hún að mörgu leyti málefnalegt innlegg til umræðunnar. Ég fagna því að hann er sammála okkur sjálfstæðismönnum um að málið þurfi vandaða meðferð. Við gerum okkur grein fyrir því að tíminn er skammur. En við leggjum engu að síður áherslu á að málið fái vandaða meðferð.

Ég fagna því að hann er greinilega tilbúinn til þess að ræða ýmsar breytingar á frumvarpinu. Ég held að það sé gott. Ég held að það sé miklu betra að við nálgumst málin á þann veg að við finnum út hvernig við getum komist að góðri niðurstöðu í sameiningu frekar en að hafa uppi málflutning eins og var hér áðan af hálfu hv. þingmanna Samfylkingarinnar. Þeir virtust fá ógnarhroll og mikinn taugaskjálfta vegna þess að kallað var eftir upplýsingum um faglega vinnu sem lægi að baki frumvarpinu.