136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[17:01]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst ég vera að endurtaka mig talsvert mikið og ég bið þá sem á hlusta velvirðingar á því. Ef skilja á hv. þingmann á þann veg að hún vilji að löggjafinn ákveði peningastefnuna, ákveði peningamagn í umferð, vexti eða eitthvað slíkt, þá er það alveg fráleit hugmynd. Ef hugmynd hennar er einhver önnur, sem ég held að hljóti að vera, þó að ég skilji ekki alveg hvað hún er að fara, er ég svo sem alveg til í að skoða það. En ég mun ekki hverfa frá því að það er skynsamlegt að vera með sjálfstæðan Seðlabanka með faglegri stjórn sem tekur sjálfstæðar og faglegar ákvarðanir. Það er grundvöllur þess að vera með heilbrigt peningalíf sem nýtur trausts utan lands sem innan. Án þess er engin von til þess að við fáum einhverja til þess að trúa á þennan gjaldmiðil okkar, hversu lengi svo sem við sitjum uppi með hann.