136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[18:01]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ef til vill hefði verið heppilegra fyrir umræðuna að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefði fengið að flytja frumvarp sitt um innköllun íslenskra aflaheimilda áður en frumvarpið sem nú er rætt, um frjálsar handfæraveiðar — ef ég má tala glannalega — hefði verið tekið á dagskrá. (Gripið fram í.) Þótt málin séu væntanlega tekin fyrir eftir númerum — og þau eru að sjálfsögðu rétt og farið að öllum formsreglum — þá hefði hitt kannski verið efnislega skýrara og ég held að umræðan sem fór fram áðan hafi sýnt okkur það, ræða hv. þm. Illuga Gunnarssonar og andsvör við henni.

Sérstaka athygli mína vakti að Illugi hafði ekki náð að kynna sér tillöguna um innköllun aflaheimilda vegna þess að þar er tiltekið að ekki ríkissjóður heldur sérstakur auðlindasjóður, sem verði stofnaður, hafi það hlutverk að leigja allar aflaheimildir gegn eðlilegu gjaldi. Ég geri ráð fyrir að flutningsmaður þeirrar tillögu — sem ekki er til umræðu hér, þótt við hljótum að taka þetta hvort tveggja saman — reikni með sérstökum reglum fyrir auðlindasjóðinn um hvernig fara á með þann arð sem eigendur auðlindarinnar, almenningur á Íslandi, Íslendingar allir, bæði þeir sem nú lifa og þeir sem síðar koma, fá.

Menn hafa rætt um það fyrr og síðar, því þessi umræða hófst ekki í dag, að hægt sé að setja reglur með ýmsum hætti um að hluti arðsins renni beint til þess að styrkja byggðir og efla þann sjávarútveg sem á hallar hverju sinni. Þannig að sú röksemd er auðvitað út í hött að arður af sjávarútvegi renni sjálfkrafa í ríkissjóð og fari þar með í einhvern óþarfa, en það er mikið vantraust á ríkissjóð hjá manni í flokki sem er nýkominn úr sautján og hálfs árs samfelldri ríkisstjórn. (Gripið fram í: Og sjö daga.) Og sjö daga, bætir hv. þm. Árni Johnsen við, en hann þekkir þessa sögu vel og hefur stutt, held ég, nánast allar þessar ríkisstjórnir en þó með ákveðnu hléi, sem við skulum ekki ræða í dag.

Afstaða mín til frumvarpsins tengist afstöðu minni til þess sem síðar kemur um innköllun aflaheimilda, vegna þess að ég tel að ef einhver breyting yrði í þá veru sem það frumvarp boðar væri nauðsynin á því að gefa handfæraveiðar frjálsar ekki sú sem flutningsmaður hefur rakið ágætlega. Vegna þess að ef um væri að ræða almenna leigu veiðiheimilda til árs í senn eða svo og allar veiðiheimildir væru þar undir ætti að vera tiltölulega einfalt að skipa því þannig að allir sem vilja eigi möguleika á að stunda fiskveiðar með þeim hætti sem þeim fellur best, hvort sem það er með togaraflota eða handfæraveiðum.

Auðvitað er mikilvægt að fjölbreytni sé í fiskveiðum og að reglur sem settar eru um þær stuðli að slíkri fjölbreytni og hygli ekki einni grein á kostnað annarrar nema til þess séu sérstök rök. Ég tel að í raun og veru ættum við að stefna að því að gera frumvarp sem þetta óþarft með því að breyta kerfinu sem komst á 1983 og festist í sessi með framsalsviðbótinni árið 1990 og skerptist enn með því, sem er nú kannski verst af þessum þremur áföngum kvótakerfisins svokallaða, heimildinni til veðsetningar árið 1998, sem ógnar yfirlýsingu Alþingis frá 1990 um að fiskimiðin kringum Ísland skuli vera eign íslensku þjóðarinnar.

Kannski er við hæfi að rifja upp í þessu sambandi að þegar menn rekja orsakirnar fyrir því ástandi sem nú er á Íslandi liggja tvær digrustu ræturnar að mistökum í kringum einkavæðingu bankanna og upptöku kvótakerfisins 1983, viðbótinni við það árið 1990 og ekki síst veðsetningunni 1998.

Saga málsins er þyngri en tárum taki og auðvitað er engum einum um að kenna. Ég verð þó að fagna því að nú er sú ríkisstjórn afsett og sá fjármálaráðherra sem síðast átti að fjalla um málið, en kveðið var á um það í stjórnarsáttmála hennar, stefnuyfirlýsingu, með leyfi forseta:

„Gerð verður sérstök athugun á reynslunni af aflamarkskerfinu við stjórn fiskveiða og áhrifum þess á þróun byggða.“

Setninguna má að vísu túlka með ýmsum hætti en þó var bundin við hana sú von að málið gæti hreyfst eitthvað í tíð þessarar ríkisstjórnar og sjávarútvegsráðherrans sem þar gegndi störfum, hv. núverandi þm. Einars K. Guðfinnssonar.

Þessi setning í stefnuyfirlýsingunni fékk meiri þunga þegar mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna felldi sinn fræga úrskurð í október 2007, sem hér hefur verið rætt um. Við munum að það tók hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, hálft ár að svara þeirri yfirlýsingu og gera þær athugasemdir sem hann kaus að gera í nafni íslensku þjóðarinnar og stjórnvalda á Íslandi. Það gerðist 11. júní 2008. Eitt af svörunum var einmitt það að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar væri þessi klausa um að gera úttekt á reynslunni af aflamarkskerfinu og má skilja það svo að kvótakerfið sem slíkt sé þar undir. Hann vísar til klausunnar í svari við athugasemdum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um kvótakerfið á Íslandi og hvernig það bryti í bága við alþjóðareglur um mannréttindi.

Annar liður þess svars var sá — af því að hv. þm. Illugi Gunnarsson var að velta fyrir sér hvernig málið væri statt — að ráðherrann ætlaði sér að skipa nefnd stjórnarflokkanna — eða það sagði hann að minnsta kosti í íslenskum fjölmiðlum — til þess að hefja endurskoðunina. Sú nefnd hefur enn ekki verið skipuð og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson skipar hana varla úr þessu, að minnsta kosti ekki sem sjávarútvegsráðherra.

Sérkennilegt er að sjávarútvegsráðherra þessi var spurður nokkrum sinnum um nefndina og svaraði alltaf að hún yrði vonandi skipuð fljótlega, það væri alveg á næstunni eða nú þyrfti hann bara að ræða við einn mann eða tvo til að skipa nefndina, en það varð aldrei. Mann grunar að ástæðan sé sú að sjávarútvegsráðherrann og flokk hans hafi ekki langað til að skipa þessa nefnd og kannski hafi aldrei staðið til að neitt yrði úr þessari klausu annað en að láta undan kröfum Samfylkingarinnar um að eitthvað hreyfðist í málunum kringum stjórn fiskveiða á því kjörtímabili, sem menn héldu þá að yrði full fjögur ár. Það gerðist sem sé ekki og er ein af fjölmörgum ástæðum þess að menn hljóta að fagna því að dagar þessarar ríkisstjórnar eru liðnir.

Með þeim formála sem ég hef haft um frumvarpið þá styð ég það. Ég tel einfaldlega að löngu sé kominn tími til breytinga á því kerfi sem hér hefur verið sett niður. Kominn tími til þess að þeir sem minna mega sín í þessum efnum, sjómenn sem hvorki hafa það fjármagn né þau sambönd sem til virðist þurfa til að geta komist á sjó og veitt. Að nýliðar komist inn í greinina og kerfið sé sprengt upp með einhverjum hætti.

Ég er almennt ekki talsmaður þess að fullt frelsi sé gefið til veiða á Íslandi með rökum sem hv. þm. Illugi Gunnarsson taldi hér fram síðast og margoft hafa verið talin. Þeir tímar eru liðnir að við getum leyft okkur þann munað. Ég er heldur ekki neinn sérstakur talsmaður sóknarmarks umfram aflamark. Ég tel að bæði kerfin hafi sína kosti og aflamarkið henti betur í heildina. Ég geri mér fulla grein fyrir þeirri hættu sem Illugi Gunnarsson talaði um og vissulega er fræðilega rétt að þetta gæti gerst. Á móti því er það að segja að ef það gerist eru til aðrar takmarkanir en settar eru á í frumvarpinu. Ef eitthvað fer úr böndunum er rúllum fækkað, lestartalan lækkuð, tíminn styttur eða með einhverjum hætti brugðist við þeirri þróun sem verður.

Jafnvel við sem trúum á veiðileyfagjald á þjóðareign á sjávarútvegsauðlindinni og sjálfbæra nýtingu hennar gegn gjaldi vitum að eftir að því marki hefur verið náð heldur fiskveiðistjórnun áfram, sem og umræða um sjávarútvegsmál og við höldum auðvitað áfram að skoða auðlindina, virða hana fyrir okkur og athuga þær aðferðir sem við höfum til þess að stjórna sókninni í hana. Alveg eins er með þetta.

Mér finnast frumvarpið og hugmyndin nánast sjarmerandi, að þótt við höfum þetta kerfi og þessa skipan, jafnvel þótt hún breytist frá því sem nú er, sé sá möguleiki fyrir hendi að menn geti farið á handfæraveiðar án þess að þurfa sérstaka kvótaúthlutun til þess. Það má hugsa sér að það verði gegn lágu gjaldi til að friða okkur veiðigjaldsmenn. Ég held að þetta gæti styrkt smærri byggðir, tryggt nýliðun í greininni og séð til þess að menn öðlist mikilvæga reynslu af handfæraveiðum jafnvel þótt þeir endi í öðrum veiðum.

Ég held líka að rétt sé sem menn hafa sagt að af þeim veiðiskap sem til boða stendur sé þessi hvað umhverfisvænstur, þótt ég sé ekki viss um að hann sé endilega hagkvæmastur. En um það keppa menn einfaldlega og ég er reiðubúinn til að gefa greininni það forskot sem felst í tillögum af þeim toga sem í frumvarpinu eru. Síðan þarf auðvitað að ræða nákvæmlega hvaða tölur gilda og hvaða stærðir eru valdar. Ég veit að þegar menn semja frumvarp verða þeir að velja það sjálfir og ekki á að hanka þá á þeim tölum sem þeir hafa valið heldur hugsa um frumvarpið í heild og þá möguleika sem það gefur á breytingum til framfara í íslensku samfélagi.