136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[18:15]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna yfirlýsingu hv. þm. Marðar Árnasonar. Ég ætlaði einfaldlega að spyrja hvort hv. þingmaður styddi frumvarpið. Hann svaraði því þannig að ég er búinn að fá svar.

En það er sorglegt til þess að vita að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hafi hunsað þetta mál og álit mannréttindanefndarinnar í heilt ár og ekkert gert í málunum eða reynt að leiðrétta þetta með einum eða neinum hætti. Samfylkingarmenn í sjávarútvegsnefnd og þingmenn og ráðherrar hafa verið spurðir ítrekað um þetta og afstöðu þeirra til málsins en ekkert hefur komið út úr því, því er nú andskotans verr. Það má segja það.

Aflamark eða sóknarmark. Það er töluverður munur, hv. þingmaður, á því vegna þess að í aflamarki er hvatinn sá að koma með dýrmætustu fiskana að landi og skilja eftir smáfisk eða fisk sem er ódýrari einhverra hluta vegna, vegna þess að hann er tveggja nátta netafiskur eða smáfiskur eða annað, og koma ekki með hann í land. Þegar menn þurfa að leigja veiðiheimildir eins og er í dag á 200 kr. kílóið af þorskinum og fá svo bara fyrir hann 220–250 kr. þegar best lætur eins og er núna þessa dagana, freistast menn til þess að koma bara með dýrmætu fiskana í land. Til hvers að koma með fisk í land sem er undir 200 kr.? Það gefur augaleið að menn freistast til að kasta þeim fiski í sjóinn.

En þegar maður rær á sóknarmarki og hefur einn dag, tíu daga eða hundrað eða hvað sem þeir eru margir, til að veiða hefur maður ekki hag af því að henda fiski í sjóinn. Þá kemur maður með allan afla að landi. Það bara borgar sig.