136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

athugasemdir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

[13:39]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Á skömmum tíma hefur það gerst í íslensku samfélagi sem veldur því að ekkert er eins og áður. Það á líka við um ýmiss konar leynd eða trúnað og samskipti af því tagi sem hér hafa verið á milli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þeirrar ágætu stofnunar, og ríkisstjórnar og þings eða stjórnvalda. Eitt af því sem átti hvað mestan þátt í þeirri óánægju, óþoli og nánast byltingarástandi sem hér ríkti frá því í haust og fram í janúar var einmitt sú leynd sem síðasta ríkisstjórn, og þó einkum forustumaður hennar, taldi sér skylt að hafa yfir þeim samningum og þeim skilyrðum sem fram komu í viðskiptum ríkisstjórnarinnar við þennan sama sjóð, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Ég fagna því að nú eigi að fá þetta upp á borðið því að það er mjög mikilvægt að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum slíkum stofnunum að þeir séu hér ekki að ræða við einstaka menn, þeir eru ekki að ræða við einhvern aðal á Íslandi, heldur við alla þjóðina í gegnum fulltrúa hennar í ríkisstjórn og á Alþingi. Þess vegna eiga allar svona upplýsingar að vera opnar og þær eiga að berast út til allrar þjóðarinnar.

Það er leitt að þetta mál skuli valda töfum á þingstörfum þó að auðvitað sé hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir það að þakka að vekja athygli á þessu — sem hann gerði þó ekki í október, nóvember, desember og janúar sl. um aðrar upplýsingar sem svipað átti við um. Það mikilvægasta fyrir þing og þjóð er hins vegar að friður og traust fái að ríkja um bankann á ný jafnt inn á við sem út á við. Bankinn er ein mikilvægasta fjármálastofnun landsins og orðspor okkar út á við og inn á við krefst þess að skapað sé traust og friður um bankann, eins og Davíð Oddsson sagði um Landsbankann árið 1998.