136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

279. mál
[16:22]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda hv. þm. Pétri Blöndal á að fyrri ríkisstjórn sprakk m.a. vegna þess að þolinmæði Samfylkingarinnar þraut. Hana þraut m.a. vegna þess að við töldum að litlu væri komið í verk. Það væri lítil verkstjórn.

Það má svo sem vel til sanns vegar færa að þau mál sem núverandi hæstv. ríkisstjórn setur nú á dagskrá eru mjög í anda fyrrverandi hæstv. ríkisstjórnar. Munurinn er hins vegar sá að það gerðist ekkert. Það gerðist ekkert á síðustu vikum og mánuðum síðustu hæstv. ríkisstjórnar frá því að bankarnir hrundu. Nú liggur fyrir að þessi ríkisstjórn ætlar að láta hendur standa fram úr ermum og láta verkin tala. Ég efast ekki um að núna á næstunni muni þessi mál koma fram sem um var rætt áðan.

Síðan vil ég segja, hæstv. forseti, að ég er ekki viss um að þessi umræða sem hv. þm. Pétur Blöndal byrjaði á skili okkur einhverju. Það voru sjálfstæðismenn í þinginu sem hófu umræðu um form en ekki innihald. Það voru sjálfstæðismenn á þinginu sem hófu umræður um höfundarrétt á greiðsluaðlögunarfrumvarpi. Það skilar fólkinu í landinu hins vegar engu. Það eru aðgerðir, aðgerðir og aðgerðir en ekki japl, jaml og fuður, að skoða, spá og spekúlera, sem sjálfstæðismenn gerðu því miður allt of mikið af á síðustu vikum og mánuðum og er m.a. ástæðan fyrir því að við stöndum í þeim sporum sem við stöndum í í dag.