136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík.

[14:28]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér þykir miður að þessi umræða skuli vera svona stutt vegna þess að það er sannarlega ekki vanþörf á að ræða atvinnuuppbyggingu um land allt, þá ekki síst í héruðum eins og á Norðausturlandi eins og hér er um rætt. Ég er þess vegna dálítið leið yfir því hvað þessi umræða fer út og suður. Ég skil ekki alveg eftir hverju menn eru hér að fiska, eins og hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir sem er hér meira komin í kosningaham og kallar slagorð inn í sitt kjördæmi þegar hún spyr hæstv. ráðherra hvort hún ætli að leggja stein í götu þessa verkefnis innan þessarar ríkisstjórnar sem nú situr og á að sitja fram að kosningum.

Það er alveg kristaltært að það er ekki hægt að leggja stein í götu þessa verkefnis. Í gildi er viljayfirlýsing (Gripið fram í.) á milli aðila um þetta verkefni, um uppbygginguna á Bakka, og sú viljayfirlýsing er í fullu gildi þangað til í haust þannig að það verður í verkahring annarrar ríkisstjórnar að fjalla um hana. (Gripið fram í.)

Það er miður, og mér þóttu það vondar fréttir sem bárust frá Alcoa, að vegna heimsmarkaðsverðs á áli og stöðunnar almennt á mörkuðum séu á að giska 12 mánuðir í að hægt verði að fara að undirbúa stórar ákvarðanir í þessum efnum svo vitnað sé nánast beint til forstjóra Alcoa Fjarðaáls vegna þess að núna ríður á að þarna verði byggt upp. Ég vona sannarlega að það verði farið að birta til á fjármagnsmörkuðum með haustinu þannig að uppbygging geti haldið þarna áfram af fullum krafti. Ég segi, virðulegi forseti, að það er mjög mikilvægt að orkan á Norðausturlandi verði nýtt í heimabyggð. Hér er talað um að það skorti stuðning frá hinu opinbera. Virðulegi forseti. Það mun ekki standa á stuðningi míns flokks við það (Forseti hringir.) að byggt verði upp með myndarlegum hætti á Norðausturlandi í þessum efnum.