136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

afhendingaröryggi raforku og virkjun vatnsfalla á Vestfjörðum.

283. mál
[15:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir svörin svo langt sem þau ná. Það sem hann nefndi hér voru allt mjög mikilvæg úrbótaatriði er varða afhendingaröryggi raforku. Hins vegar má segja að það séu neyðaraðgerðir öðrum þræði. Það er auðvitað ekki ásættanlegt að keyra þurfi dísilrafstöðvar á Íslandi um þessar mundir til að tryggja afhendingaröryggi orkunnar, hvort sem það er á Vestfjörðum eða annars staðar.

Hvað varðar greiningu á þessum kostum öllum sem þarf að fara yfir, þá þarf auðvitað að hraða henni svo allt liggi fyrir. Það sem er hins vegar aðalatriði málsins og eftir stendur í þessari umræðu þegar það liggur fyrir að ekki þarf að gefa út sérstakt rannsóknarleyfi vegna Hvalárvirkjunar — það er góðra gjalda vert og skapar skilyrði fyrir þetta fyrirtæki og þá ágætu áhugamenn sem þar eru til þess að fara í þær framkvæmdir við rannsóknir — grundvallaratriðið er að Landsnet tryggi að viðkomandi orkuver geti selt framleidda orku inn á kerfið. Það er þá næsta verkefni iðnaðarráðherra að tryggja að Landsnet geti staðið þannig að málum að hægt verði að selja inn á kerfið þá dýrmætu raforku sem hægt er að framleiða í Hvalárvirkjun. Enn stendur á að fá það ljóst og klárt hvort Landsnet er tilbúið til þess að standa með forsvarsmönnum þeirra sem vilja virkja.