136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

aðild að ESB.

[10:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög skýrt og gott svar um stefnu núverandi flokka í Evrópumálum, (Gripið fram í.) ég heyri, og vona að ég fái kannski örlítið lengri tíma, að það er mikill taugatitringur meðal þingmanna Samfylkingarinnar þegar þetta ber á góma. Það er allt í lagi.

En höfum alveg á hreinu, virðulegi forseti, að ég hafna því algjörlega að hér sé eitthvað sambærilegt á ferðinni og pólitískt tilhugalíf hv. þm. Grétars Mars Jónssonar og hæstv. ráðherra. Það er ekki um neitt slíkt að ræða.

Hins vegar er ég enn þá, og ég er kannski einn um það, ekki alveg búinn að átta mig á því hverjir þessir stórsigrar Samfylkingarinnar eru varðandi Evrópumálin í þessu samstarfi. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Er enginn hér inni sem áttaði sig á því eftir svar hæstv. ráðherra? Ég varð ekki var við mikil viðbrögð.

En ég held að hæstv. ráðherra þurfi að útskýra þetta. Ég veit að það kom mörgum vinstri grænum mjög á óvart að það væri búið að taka þennan Evrópukúrs. Og ég hvet þá til að nota tækifærið og ræða ekki um Sjálfstæðisflokkinn, heldur svara því almennilega hvar þessir stóru (Forseti hringir.) sigrar liggja.