136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu.

197. mál
[11:34]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekkert kómískt í þessu sambandi, hvort þetta mál er fyrsta, annað, þriðja, fjórða eða fimmta mál, það hefur ekkert með þetta mál að gera.

Það sem ég er hér að undirstrika er það að við höfum talað fyrir okkar sjónarmiðum. Þau eru ljós og ég vænti þess að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir telji eðlilegt að í lýðræðissamfélagi séu ólíkar skoðanir og ólík nálgun á mál, m.a. þetta, og að það fái að heyrast. Það er ekki sjálfgefið að í utanríkismálanefnd séu allir alltaf sammála í öllum málum sem þar koma fram og eins hér í þinginu.

Við höfum talað mikið um það undanfarna mánuði að styrkja þurfi og efla þingræðið á kostnað framkvæmdarvaldsins. Ég tel því ekkert óeðlilegt við það að hér myndist alls konar, ef svo má segja, meiri hlutar í málum, ef við erum að hugsa um það að þingið eigi að vera sterkt og taka ekki endalaust við skipunum frá framkvæmdarvaldinu. Þá er það bara eðlilegasti hlutur í heimi. Ég tala nú ekki um við þær aðstæður sem við búum við í augnablikinu og við þekkjum öll en verður vonandi breytt eftir kosningar 25. apríl.