136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

tímabundnar ráðstafanir í þágu einstaklinga.

128. mál
[12:26]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Hann kom þarna inn á hluta af vandanum, hvernig skuldir eru færðar á milli aðila. Vandinn er alltaf sá að gæta jafnræðis á milli aðila sem lenda af einhverjum orsökum í slíkum vandræðum með afborganir sínar og hinna sem tekist hefur að standa í skilum með lán sín.

Ég tek eftir því að í 1. gr. frumvarpsins, í síðustu málsgreininni er gert ráð fyrir því að afborganir, vextir og verðbætur fari á sérstakan biðreikning og verði síðan bætt aftan við lánið, eins og ég skil það. Það væri kannski gott að fá frekari útskýringar á því hvernig hv. þingmaður hefur hugsað sér þetta atriði nákvæmlega og eins það hvernig þetta kemur inn á gjaldþrotaskiptalögin sem er vísað til. Vísað er m.a. til gjaldþrotaskipta í 4. gr. Það væri áhugavert að heyra það hvernig hv. þingmaður hugsar sér að það spili saman með gjaldþrotaskiptalögunum. Gert er ráð fyrir því í skuldaaðlöguninni að það mál snúi að gjaldþrotaskiptalögunum. (Forseti hringir.)