136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[16:52]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um breytta skipan gjaldmiðilsmála. Þingmenn Frjálslynda flokksins hafa áhuga á að tengja íslensku krónuna við aðra mynt og nefna þar sérstaklega þá norsku í samstarfi við norsk stjórnvöld. Ef sá kostur er ekki mögulegur mundu þeir vilja kanna möguleikana á að taka upp evru, annaðhvort einhliða eða í samráði við Evrópusambandið. Ég held að það sé ljóst að við öll sem höfum talað hér í dag höfum miklar áhyggjur af íslensku krónunni og það er því þakkarvert að þetta mál sé til umræðu.

Það er ljóst í mínum huga að vantraust á íslenska efnahagslífið endurspeglast í algjöru vantrausti okkar á íslensku krónunni. Það er þannig að raunverulegt gengi krónunnar er ekki til og sem dæmi getum við nefnt að bæði disneydollarar og jafnvel myntin í tölvuleiknum Eve Online virðast njóta meira trausts en krónan. Ríkið hefur steypt sér í stórkostlegar skuldir til að styðja við krónuna og við sitjum hér öll með krosslagða putta og vonum að það virki. En þótt okkur takist að rétta okkur við núna verðum við að horfast í augu við það að við erum með minnstu sjálfstæðu mynt í heimi í opnu hagkerfi, alla vega um leið og við losum um gjaldeyrishöftin.

Flutningsmenn benda á að þrátt fyrir gríðarstóran gjaldeyrisvarasjóð, sem við erum að koma okkur upp, eru miklar líkur á að sveiflur á gengi krónunnar verði ekki minni á næstu árum en verið hefur. Þeir benda líka á að íslensku krónunni er ekki treyst í langtímaviðskiptum með því að við gerum kröfur um að vera með verðtryggingu á langtímalánum, auk þess sem vantraustið er algjört bæði á íslenska fjármálalífið og Seðlabankann og það mun taka mörg ár, ef ekki áratugi, að endurvinna það traust. Það er algjörlega ljóst í mínum huga að sveiflur á gengi krónunnar eru því ekki að fara neitt.

Ég hlýt því að spyrja: Hvenær er kominn tími til að grípa til aðgerða? Hvenær er kominn tími til þess að við gefumst hreinlega upp á myntinni okkar? Stór hluti íslenskra heimila og fyrirtækja valdi að taka frekar lán í erlendri mynt en þeirri íslensku. Útflutningsfyrirtækin okkar neita að skipta gjaldeyrinum sínum yfir í íslenskar krónur og geyma peninginn frekar inni á gjaldeyrisreikningum í íslenskum bönkum og eru á fullu að velta fyrir sér hvort þau geti hugsanlega greitt starfsfólki sínu í erlendri mynt — sum eru jafnvel þegar farin að gera það.

Mig minnir að ég hafi lesið viðtal við forstjóra tölvufyrirtækis sem býður upp á Eve Online og hann hafi verið spurður hvernig væri með þessar sveiflur. Hann lýsti því yfir að hann væri algjörlega búinn að losa sig við þetta því hann væri farinn að borga starfsfólki sínu í þeirri mynt sem hann fengi tekjurnar í. Afleiðingin er sú að það eru að verða til tveir þjóðfélagshópar í samfélaginu, þeir sem fá greitt í erlendri mynt, og hafa það bara ansi gott, og þeir sem þiggja laun í íslenskum krónum, sem er sífellt að verða minna virði, og hafa það bara ansi skítt.

Ég er því sammála flytjendum málsins um að leita verður leiða til þess að leysa gjaldeyriskreppu okkar Íslendinga en ég er hins vegar ekki sannfærð um að norska krónan sé rétta lausnin. Áhugi Norðmanna virðist ekki vera mikill þrátt fyrir fullyrðingar hæstv. fjármálaráðherra um annað. Má t.d. nefna að Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, hafnaði hugmyndinni strax í nóvember og taldi betra að lána íslenskum stjórnvöldum í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og styðja þannig við íslensku krónuna. Kristín Halvorsen, skoðanabróðir hæstv. fjármálaráðherra og fjármálaráðherra Noregs, hefur svo sem tekið vel í hugsanlegar viðræður við íslensk stjórnvöld um gjaldeyrissamstarf ef eftir því yrði leitað, en mig minnir nú að samt hafi verið ákveðið hik á henni þegar hún nefndi það.

Við getum svo sem líka hugsað okkur að hægt væri að beita Norðmenn þrýstingi þar sem þeir hafa töluverðar áhyggjur af því að við sækjum um aðild að Evrópusambandinu ef aðrir valkostir bjóðast ekki í sambandi við myntina. En þá hljótum við að spyrja: Hentar norska krónan? Myntin er ekki stór. Landið er ekki stórt og hagfræðingar hafa bent á að hagsveiflur í Noregi tengjast fyrst og fremst olíuverði en ekki matvælaframleiðslu eins og áður og hagkerfi þessara ríkja eru þar með töluvert ólík. Við eigum einnig fyrst og fremst í utanríkisviðskiptum í evrum og dollurum og ef við göngum einhvern tímann í framtíðinni í Evrópusambandið þyrftum við væntanlega enn á ný að skipta og þá yfir í evrur.

Ríkisstjórnin virðist heldur ekki vera sérstaklega samstiga í þessu máli. Hæstv. fjármálaráðherra vill að sjálfsögðu alls ekki koma nálægt Evrópusambandinu og hefur kastað fram hugmyndinni um norsku krónuna sem lausn sem hugnast honum, að því er ég fæ heyrt, og öðrum andstæðingum Evrópusambandsins betur.

Hæstv. forsætisráðherra sagði að hún sæi það ekki í stöðunni að taka í bráð upp aðra mynt en krónuna og sagði að fram þyrftu að koma sérstök rök fyrir því. Hún sagði að málið hefði ekki verið rætt sérstaklega í ríkisstjórn heldur aðallega í fjölmiðlum að því er virtist.

Þriðja skoðunin kom síðan frá hæstv. viðskiptaráðherra, Gylfa Magnússyni, sem taldi að við gætum haft eitthvert gagn af einhverju samstarfi við Norðmenn í gjaldmiðilsmálum en taldi að norska krónan væri ekki æskilegur framtíðargjaldmiðill fyrir Ísland. Það má líka minna á það að hæstv. viðskiptaráðherra var einn 32 hagfræðinga sem blés hugmyndina um einhliða upptöku evru út af borðinu. Að mati þeirra er eina framtíðarlausnin að endurheimta traust á íslenskt efnahagslíf og tryggja drjúgan afgang af viðskiptum við útlönd — sem sagt einfaldlega að lifa á því sem við öflum.

Ég verð að viðurkenna að þetta er svolítið nýtt hugtak fyrir okkur Íslendinga. En það er kannski málið. Við verðum kannski að fara að horfast í augu við að það verða engar töfralausnir á því hvernig við ætlum að tækla þau vandamál sem við erum að fást við, þessi stórkostlegu og erfiðu vandamál. Þetta verður erfitt og allar leiðir sem við munum velja fela í sér ákveðna áhættu. Það að halda sig við íslensku krónuna, semja við Norðmenn um myntsamstarf, taka upp einhliða evru eða dollara eða sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka í framhaldinu upp evru.

Ég tel mikilvægt að Alþingi álykti að ríkisstjórninni verði falið að kanna möguleika á að tengja íslensku krónuna við aðra mynt. Ekki vegna þess að ég sé sannfærð um að einhver ein leið sé betri en önnur heldur vegna þess að við verðum að hætta að tala um alla möguleikana, við verðum að fara að grípa til aðgerða og þær aðgerðir verða að byggjast á bestu mögulegu upplýsingum, og ég tel að þingsályktunartillagan fjalli í raun og veru um það.

Ef eina leiðin er að fara í viðræður við viðkomandi lönd til að fá ákveðna niðurstöðu þá verður svo að vera. Tíma aðgerðarleysis er lokið. Kominn er tími til þess að grípa til aðgerða.