136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[18:39]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á þessu. Ég var staddur á fundi viðskiptanefndar í hliðarherbergi, það eru mörg verkefni sem snúa að okkur þingmönnum. Ég fagna því að málið er komið á dagskrá og held að afar brýnt sé að við förum yfir það á faglegan og málefnalegan hátt hvort þingið sé reiðubúið til að taka það skref að vera með stjórnlagaþing. Þetta er stórt skref í sögu lýðveldisins vegna þess að stjórnarskrá okkar, sem hefur reynst vel, er frá árinu 1944. Engu að síður verðum við að horfast í augu við það að erfitt er að breyta henni og þingmenn og þingflokkar hafa ekki alltaf verið reiðubúnir til að stíga þau skref. Sérstaklega í ljósi þess að til þess að breyta stjórnarskránni þarf þingið að samþykkja breytingarnar, svo þarf að rjúfa þing og boða til kosninga og kjósa svo aftur um stjórnarskrárbreytingarnar. Þannig að breytingarnar vilja oft deyja í kosningaslagnum og má segja að önnur mál séu kannski kosningavænni.

Alltaf stóð til að breyta stjórnarskránni frá 1944, sérstaklega í ljósi þess að stjórnarskrárnar frá 1874 og 1920 voru undirstaða hennar. Heildarendurskoðun átti að fara fram strax eftir stofnun lýðveldisins en það gerðist ekki og endurspeglar kannski þann vanda sem blasir við í dag.

Mig langar til að benda á eitt atvik, hinn svokallaða aðskilnaðardóm. Jón Kristinsson lenti í árekstri á Akureyri og sætti sig ekki við að sami maður — bæjarfógetar og sýslumenn fóru þá með þau mál — skyldi bæði rannsaka málið og dæma í því. Það var ekki fyrr en niðurstaða kom frá mannréttindanefnd Evrópu um að þetta mál væri tækt fyrir Mannréttindadómstólnum sem ríkið sá sig knúið til að breyta þessu og skilja algerlega á milli framkvæmdarvalds og dómsvalds. Ég fékk tækifæri til að ræða þetta mál á hátíðarmálþingi Orators sem var haldið í gær í Háskóla Íslands og spurði þar nemendur og þá sem viðstaddir voru hvort einhverjir væru reiðubúnir að stíga skref til baka. Enginn var reiðubúinn til þess, enda held ég að menn séu algerlega sammála um að fyrirkomulagið sem var við lýði gekk ekki upp, jafnvel þó að góð og gild rök, hagkvæmnis- og kostnaðarrök, hafi verið fyrir því.

Það sem ég er að reyna að segja er að þó að menn telji að þetta hafi verið fullkomlega eðlileg breyting fór hún ekki í gegnum þingið. Frumkvæði þingmanna varð ekki til þess að þessi eðlilega og sjálfsagða breyting yrði að veruleika. Þetta er staðan í dag. Íslenska þjóðin lenti líka í árekstri og stendur nú frammi fyrir því að ekki einungis hefur eftirlitskerfi Fjármálaeftirlits og Seðlabanka brugðist heldur einnig það eftirlitskerfi sem þrígreining ríkisvaldsins boðar að vald hafi eftirlit með öðru valdi, það hefur einnig brugðist. Þegar mótmælin áttu sér stað var sagt að menn vissu ekki hverju þeir væru að mótmæla. Ég segi einfaldlega að menn hafi mótmælt því að í svona krísu skyldi löggjafarvaldið, kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, hafa jafnlítið um málin að segja og raun bar vitni. Við skulum líka muna að hinn mikli meiri hluti síðustu ríkisstjórnar, 43 af 63 þingmönnum, opinberaði hversu valdalausir óbreyttir þingmenn voru. Ég held að það hafi ekki verið tilviljun þegar þingkonur stjórnarliðanna komu fram og létu falla hin frægu orð um að þeim liði hálfpartinn eins og afgreiðslukonum á kassa. Þær sögðu með öðrum orðum að þær upplifðu valdaleysi sitt og liði eins og Alþingi væri í raun afgreiðslustofnun stjórnarfrumvarpa frá ríkisstjórninni.

Það er fáránlegt til þess að hugsa að þingmannafrumvörp skuli ekki fá jafngott brautargengi, eins og þau mál eru mörg hver mikilvæg og góð. Mörg þeirra hafa kveðið á um breytingar á stjórnarskránni.

Frumvarpið sem við framsóknarmenn höfum lagt fram er ekki heilagt að því leyti að við teljum að þetta sé sú leið og það form sem við viljum sjá að verði. Það sem er brýnast í málinu er að stjórnlagaþing verði að veruleika, og þjóðin fái að kjósa sér fulltrúa sem eru hvorki þingmenn né ráðherrar og þessir kjörnu fulltrúar hafi fullt umboð til að fara yfir stjórnarskrána og breyta því sem þarf að breyta. Vel getur verið að stjórnlagaþingið komist að þeirri niðurstöðu að ekki þurfi að breyta svo miklu. En þá hafa þingmenn, hagsmunir flokkanna og hinn þungi hrammur flokksræðisins, sem hefur stöðvað breytingar í gegnum tíðina, ekki komið í veg fyrir nauðsynlegar breytingar og tafið málin.

Ekki þarf að breyta svo miklu. Við fórum t.d. í gegnum VII. kafla stjórnarskrárinnar um mannréttindi og breyttum með góðu samráði á þinginu árið 1995 og er sá kafli grundvöllur að mannréttindum og réttindum borgara í dag. Við eigum að sjálfsögðu að skoða hvort ekki megi laga þar, breyta og bæta en ég held að við þurfum ekki að fara í einhverjar róttækar breytingar á þeim kafla. Hins vegar verðum við að fara í róttækar breytingar á því að virkja þingið og láta það fá sömu stöðu í huga fólks og það á að hafa. Þingið hefur sett niður að undanförnu og þegar við horfum upp á það að formenn stjórnarflokkanna hafa í raun algert alræðisvald er sú hugmynd athyglisverð hvort við eigum að kjósa yfirmenn framkvæmdarvaldsins í beinum kosningum. Þetta er ein af mörgum hugmyndum sem þarf að skoða og fara yfir á málefnalegan hátt.

Við leggjum til að á stjórnlagaþinginu verði 63 fulltrúar. Ég held að það sé eðlileg tala. Þær raddir hafa komið fram að þeir eigi hugsanlega að vera tvöfalt fleiri og jafnvel að hægt verði að kasta upp á hverjir það væru, 63 fulltrúar verði kosnir og kastað upp á hverjir hinir væru. Ég held að betra sé að hér séu 63 fulltrúar. Ég held að betra sé að hafa þennan fjölda en færri. Einnig hefur verið rætt um að fulltrúarnir eigi að vera einhvers staðar á bilinu 20 til 30 manns en sú tala verður að endurspegla þjóðfélagið þannig að sem breiðastur hluti alþýðunnar eigi fulltrúa.

Sagt er að eingöngu eigi að kjósa sjö. Þannig reynum við að tryggja að þeir hæfustu verði kjörnir. Líka hefur verið gagnrýnt að þetta eigi að vera eitt kjördæmi og menn óttast þá hugsanlega, eins og hefur komið fram þegar menn kjósa til Alþingis, að hagsmunir landsbyggðarinnar muni einfaldlega vera skildir eftir. Ég óttast það ekki í þessu máli vegna þess að í því verður hvorki rætt um landsbyggðarhagsmuni né höfuðborgarhagsmuni. Við tölum einfaldlega um að við ætlum að búa til ramma til margra ára um hvernig skipun mála á Alþingi og hjá þjóðinni verður hagað. Ekki er ætlast til þess að stjórnlagaþingið komi aftur saman, bara lagt til að farið verði út í nauðsynlegar breytingar sem átti að fara í fyrir löngu en hefur einfaldlega ekki gefist tækifæri til.

Þetta mál hefur oft verið til umfjöllunar innan Framsóknarflokksins og 1954 lagði þingmaður flokksins, Páll Zóphóníasson, fram frumvarp um stjórnlagaþing. Jóhanna Sigurðardóttir lagði einnig fram frumvarp um stjórnlagaþing árið 1995 og það að hún er nú sitjandi forsætisráðherra styrkir mig í þeirri trú að þetta mál nái fram að ganga í vor.

Hugmyndir hafa komið fram um að kjósa eigi til stjórnlagaþings strax í vor. Ég held að það sé vel skoðandi og mundi spara peninga. Það mundi líka tryggja að þeir sem yrðu kosnir á stjórnlagaþingið hefðu skýrt umboð þjóðarinnar til að breyta stjórnarskránni, vegna þess að ég held að hægt sé að fullyrða að kosningaþátttaka er alla jafnan mjög góð í alþingiskosningum en ef við ætlum að tefja málið fram á haust, horfum við kannski upp á minni þátttöku og það að menn fari í nokkurs konar kosningabaráttu. Ég held að við ættum að forðast í lengstu lög að þeir sem vilja sitja á þessu stjórnlagaþingi fari í harða kosningabaráttu. Það skiptir öllu máli. Ég ítreka að stjórnlagaþingið verður að verða að veruleika.

Við framsóknarmenn fögnum því að þetta mál sé komið til umræðu. Við vonum að það fái brautargengi og hraða meðferð í gegnum þingið. Ég þakka þeim sem hafa komið í ræðustól og fagnað frumvarpinu, sérstaklega hv. þm. Pétri Blöndal sem talar á skjön við Sjálfstæðisflokkinn, sem hefur fundið þessu máli allt til foráttu. Ég verð að segja að það eru aum rök að halda því fram að þeir geti ekki samþykkt málið vegna þess að samráðs hafi ekki verið gætt. Þetta er mál sem fer í gegnum þingið á eðlilegum hraða og þeir geta komið að því bæði í riti og í nefndum og ef þeir vilja breyta einhverju gera þeir það á sama hátt og þeir sem hafa verið í stjórnarandstöðunni undanfarin ár hafa þurft ef þeir hafa viljað leggja eitthvað til málanna.