136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[19:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mótmælin undanfarið í kjölfar hruns bankanna og viðskiptalífsins hafa beinst að því að koma með kröfu um gagnsæi, að ljóst sé hvernig hlutirnir eru og hvað þeir kosta. Frá því að ég kom inn á þing hefur iðulega verið ógagnsæi, frú forseti, og ég nefni sem dæmi starfskostnaðargreiðslur þingmanna. Ég hef aldrei getað vitað hvort þetta eru laun eða gjöld. Ég veit það ekki. Þetta eru bæði laun og gjöld. Ef ég hef gjöld þá er það í lagi, ef ég hef ekki gjöld, þá eru það tekjur. Ég hef aldrei viljað þessar greiðslur. Þegar ég kom inn á þing á sínum tíma bað ég um að ég mætti falla frá því. Ég hef ekki þegið þær öll þau ár sem ég hef verið á þingi, í 14 ár. Ætli það séu ekki u.þ.b. 7 millj. kr. sem ég hef tapað, frú forseti? Þarna er verið að dylja hluti og þetta er í gangi enn þá og það á ekki að breyta þessu neitt. Nei, nei, nei. Og ekki dagpeningum heldur sem er alveg út í hött. Ég er margbúinn að gagnrýna það. 80% af dagpeningum eru greiddir og hótelið líka. Maður kemur með helling af peningum aftur til baka. Ég hef reyndar lengi vel borgað inn í Hjálparstofnun kirkjunnar það sem ég græddi á þessu. En óhreinleikinn er of mikill. Hér er verið að láta undan þrýstingi frá mótmælunum, undan þrýstingi af hræðslu eru menn að fara úr einu forréttindakerfi í annað og segja að þingmenn eigi að vera eins og opinberir starfsmenn. Þingmenn eru ekki opinberir starfsmenn, frú forseti. Þingmenn eru fulltrúar, þeir eru kosnir fulltrúar þjóðarinnar og eru ekki opinberir starfsmenn. Og ég neita því að ég heyri einhvern veginn undir framkvæmdarvaldið í þeim skilningi, að ég sé starfsmaður þess.

Hér er enn ein tilraunin til að víkja undan og segja: Við erum eins og opinberir starfsmenn og þá er allt í lagi. En opinberir starfsmenn eru með forréttindakerfi, frú forseti, sem felst í því að réttindin eru föst og meira að segja mjög myndarleg, miklu hærri en hjá almenningssjóðunum, miklu hærri, sennilega 30–40% hærri vegna þess að iðgjaldið er 15,5% og þarf sennilega að hækka upp í 17,5% fljótlega sem þýðir bara meiri skatta í staðinn fyrir 12% hjá almenningssjóðunum. Er ekki 17,5% hærra en 12%? Ég hélt það. Það þýðir að réttindin eru meiri og þau eru meira að segja pikkföst þannig að þegar sjóðirnir verða fyrir áföllum eða ná ekki ávöxtun eins og líka er hugsanlegt, ef þeir ná ekki 3,5% ávöxtum til að halda uppi verðtryggingunni, þá þurfa þeir að skerða líka. Almenningur í landinu, 80% af þjóðinni, býr því við óörugg lífeyrisréttindi. Á meðan opinberir starfsmenn, 20%, eru með örugg lífeyrisréttindi á kostnað hinna og þangað eru þingmenn að sigla og þykjast vera voðalega góðir. Það er bara þannig. Ég hef miklar efasemdir um þetta.

Svo sagði hæstv. ráðherra að sumir sjóðirnir hafi notið góðrar ávöxtunar. Það er rétt, einstaka sjóður en alls ekki allir. Ég er ansi hræddur um að Lífeyrissjóður bænda muni ekki taka undir það eða margir aðrir sjóðir. Það er nefnilega ekki ávöxtunin sem gerir út um það hvort lífeyrissjóðir geti borgað lífeyri á Íslandi heldur aldursdreifing sjóðfélaga. Ef hún er neikvæð er alveg sama hvað ávöxtunin er góð, þeir geta ekki borgað góðan lífeyri. Það er galli í kerfinu, vissulega.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar er á margan hátt sérstakt. Eins og ég nefndi áðan í andsvari, þetta skrýtna að lögin eru tekin úr gildi en hér stendur að þessi tilteknu lög falli úr gildi. Þá hélt maður að þau féllu úr gildi. Nei, þau eiga að gilda áfram. Ákveðin ákvæði eiga að gilda áfram þannig að þau eru ekki fallin úr gildi. Þetta er lygi. Þetta er ekki rétt. Þau gilda áfram. Í staðinn fyrir að segja að ákveðin ákvæði falli niður sem hefði verið hreinlegra en lögin gilda áfram með þessum eftirmálum, þá eru lögin felld úr gildi, en þau gilda samt.

Svo er það sem kemur fram í 2. mgr. 3. gr., með leyfi frú forseta:

„Nú gegnir sá, sem fær greidd eftirlaun samkvæmt lögum nr. 141/2003 eða samkvæmt eldri lögum er giltu um eftirlaun alþingismanna og ráðherra fyrir 30. desember 2003, starfi á vegum ríkisins, stofnana þess eða félaga í meirihlutaeigu þess, og koma þá launagreiðslur fyrir það starf að fullu til frádráttar eftirlaunum.“

Þetta gildir um alla starfsmenn ríkisins og yfirleitt í lífeyrissjóðunum almennt, að maður sem er orðinn sjötugur má fá lífeyri sinn úr lífeyrissjóði. Hann er búinn að vinna fyrir þessu, hann er búinn að borga þetta og hann má vinna ef hann vill og það er ekkert verið að draga af honum. Þetta er mjög sérkennilegt ákvæði og það væri gaman ef hæstv. heilbrigðisráðherra gæti orðið viðstaddur umræðuna vegna þess að hann er formaður BSRB eða var það, hann er reyndar í hvíld frá þeim valdastóli núna. Er hægt að taka þessi réttindi af opinberum starfsmönnum líka? Er það svo einfalt? Ég er ansi hræddur um að margir sem eiga þennan rétt og telja sig eiga hann muni fara í mál út af því. Það er ekki hægt að taka afstöðu gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þarna held ég að menn skauti dálítið létt yfir þetta og það útskýrir kannski af hverju skuldbindingin lækkar meira eða svipað sem nemur launum þingmanna. Það er það sem hún lækkar um á hverjum mánuði.

Þetta var um frumvarp ríkisstjórnarinnar og ég er eins og ég segi hlynntur því vegna þess að það minnkar það sem er verið að fela og leyndina en það er alls ekki gagnsætt, frú forseti. Þetta er ógagnsætt. Það er verið að flytja forréttindahópinn úr einni forréttindastöðu í aðra.

Ég ætla að leyfa mér, frú forseti, þótt það hafi ekki fengist heimild forseta þingsins til þess að mæla fyrir mínu máli í dag. Það vill svo til að ég er að fara til útlanda á morgun og get ekki mælt fyrir því en það er nákvæmlega samstiga og samstofna þessu máli og hefði átt að ræðast með. Þess vegna ætla ég að leyfa mér að geta þessa máls líka af því að ráðherrafrumvarpið gekk fyrir í dag. Það er öll virðingin fyrir alþingismönnum en þingmannafrumvarpið sem hafði lægra númer og var fyrr á ferðinni en tafðist á nefndasviðinu vegna anna fékkst ekki rætt. Þess vegna ætla ég að ræða það mál.

Ég hef flutt þetta frumvarp áður, 1995, um það að þingmenn geti valið sér lífeyrissjóð, t.d. Lífeyrissjóð verslunarmanna, einhvern lífeyrissjóð úti í bæ eða Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins þannig að þeir njóti þeirra lífeyrisréttinda sem þar eru eins og kjósendur þeirra. Að þeir deili kjörum með umbjóðendum sínum og fái að kynnast því hvernig er t.d. að upplifa varanlega skerðingu á lífeyrisréttindum um alla framtíð. Þegar einhver er kannski með 50 þúsund kall á mánuði í lífeyri og það á að skerða þann lífeyri um 10%, 5 þúsund kall, þá er það ekki bara í 1–2 mánuði, það er um alla framtíð, svo menn hafi það á hreinu. Hvernig upplifun er það? Það upplifa þingmenn aldrei eða opinberir starfsmenn. Mér finnst að þingmenn eigi að deila kjörum með umbjóðendum sínum til að vita hvernig tilfinning þetta er því annars eru þeir í einhverjum fílabeinsturni og vita ekkert hvað þeir eru að tala um, í einhverjum gerviheimi. En þannig hefur það löngum verið, því miður.

Ég skora á forsætisnefnd að taka í gegn alla þessa hluti sem eru ósýnilegir og ógagnsæir í þinginu, t.d. dagpeningana eða vildarpunkta flugfélaganna þar sem þingið borgar, og það gildir fyrir alla opinbera starfsmenn, hæstv. fjármálaráðherra borgar flugfarmiða fyrir sína menn út um allan heim en starfsmaðurinn fær vildarpunktana, ekki ríkið. Hvernig stendur á því? Þetta eyðileggur alla samkeppni. (Fjmrh.: Þeir eru að skoða það.) Það er verið að skoða það já, fínt, gott, ég vona að hæstv. forsætisnefnd skoði þetta líka gagnvart þinginu og sérstaklega dagpeningana, þannig að þetta sé á hreinu.

Ég sem sagt legg til að þingmenn geti valið sér lífeyrissjóð eins og umbjóðendur þeirra og sæti þeirri skerðingu sem þar um ræðir en laun þeirra verði hækkuð þannig að það komi í ljós hvers virði þessi réttindi eru, ekki alltaf þessi feluleikur. Hafa þetta gagnsætt, sjá hversu mikils virði er að vera með lífeyrisréttindi þingmanna, sjá hversu mikils virði er að vera með lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og sjá hversu mikils virði það er að vera í Lífeyrissjóði verslunarmanna o.s.frv., þar sem menn þurfa hugsanlega að sæta í framtíðinni að lífeyrisrétturinn verði skertur. Þá loksins eru þingmenn farnir að deila kjörum með umbjóðendum sínum og þá loksins er lífeyrisrétturinn orðinn gagnsær og kjörin almennt og sérstaklega þegar menn eru farnir að laga þessa hluti, þ.e. dagpeningana og vildarpunktana og sitthvað fleira. Ég hef aldrei tekið þátt í þessu vildarpunktakerfi en því miður er það þannig að það eru flugfélögin sem græða á því en ekki ég og ekki þingið.

Það er svo önnur saga, frú forseti, að nú liggja fyrir framboð til þings og mitt frumvarp átti að taka gildi frá og með næstu kosningum þannig að þeim sem finnst lífeyrisrétturinn batna eða álagið gott geta þá boðið sig fram. En það er nefnilega þannig, og sumir hafa sagt það, að kannski eru lífeyriskjör þingmanna eða alla vega launakjör þingmanna orðin of léleg. Það getur vel verið að fólk vilji ekki bjóða sig fram til þings af því að kjörin séu svo léleg. Það getur líka verið að ummæli um þingmenn sem lenda á bloggsíðum út og suður, ummæli sem þeim þykir ekki gaman að láta börnin sín lesa, ég tek þetta til dæmis, fæli menn frá að sækja um þetta starf. Það er búið að skerða launin, það er búið að skerða lífeyrisréttindin og svo allt hitt sem menn taka í kaupbæti, t.d. mistúlkanir á ummælum o.s.frv. Fjölmiðlar gera mönnum upp skoðanir og ég veit ekki hvað og hvað, eins og ég upplifði í dag að ég átti að vera á móti frumvarpi sem ég var innilega sammála. Það var bara þannig. Ég er ekki viss um að þjóðin fái sæmilegan mannskap á skútuna og hún ætti að fara að huga að því. Fáum við nógu góðan mannskap á skútuna þegar bæði er búið að skerða launin þannig að þau eru lægri en hjá millistjórnendum hjá ríkinu og ráðuneytisstjórar allir með hærri laun heldur en þingmenn svo maður tali ekki um forstjóra ríkisfyrirtækja?

Ég held að menn þurfi að skoða þetta líka í alvöru og ræða þetta heiðarlega. Ég hef lagt það til og gert það nokkrum sinnum að fráfarandi þing ákveði tímanlega laun næsta þings, þ.e. hálfu ári eða einu ári fyrir kosningar ákveði þing laun næsta þings. Ákveði þingið að hafa launin mjög há þá munu væntanlega margir sækja um og þingmenn missa starfið. En ákveði þingið að hafa þau mjög lág þá halda þeir starfinu. Stundum læðist að manni sá grunur að menn séu að lækka launin og skerða lífeyrisréttindin til þess að fá enga samkeppni í prófkjörum og í kosningum, í komandi prófkjörum og kosningum. Það skyldi nú ekki vera?