136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[12:03]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir tiltölulega málefnalega umræðu um heilbrigðismálin. Auðvitað er það svo með málaflokk eins og heilbrigðisþjónustuna að henni verða illa gerð góð skil í þó þetta langri umræðu á hinu háa Alþingi. Ég hygg að allir hér, hvort sem þeir eru stjórnarliðar eða í stjórnarandstöðu, geri sér grein fyrir því hver hin erfiðu verkefni eru í heilbrigðisþjónustunni eins og í annarri almannaþjónustu hér á landi við þær aðstæður sem við búum við í efnahagsmálum og jafnframt þann niðurskurð sem við höfum gengið í gegnum og er fyrirsjáanlegur í ríkisútgjöldunum. Skiptir þá engu hvort um er að ræða hv. stjórnarþingmenn eða stjórnarandstæðinga.

Ég hygg að allir skynsamir þingmenn geri sér grein fyrir því að fram undan eru margar erfiðar ákvarðanir en um leið mörg tækifæri í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Tækifæri til þess að losa sig við gamla ósiði, hreinsa út ákveðin vinnubrögð og vitleysisgang, vil ég segja, sem viðgengist hafa milli stofnana, innan stofnana og hvar sem er. Jafnframt þarf að forgangsraða í heilbrigðisþjónustunni.

Vissulega er Landspítalinn – háskólasjúkrahús hrygglengjan í heilbrigðisþjónustu okkar Íslendinga. En heilbrigðisþjónustan er svo miklu meira en það. Hún er heilsugæsla í hverju einasta sveitarfélagi á Íslandi. Hún er í raun lýðheilsuæfing, hvort sem það er innan skólanna, fyrirtækjanna eða inni á heimilunum. Hún er spurning um heilbrigt líferni, um að hreyfa sig og allt það sem einstaklingur og fjölskyldur geta gert. Þess vegna má ekki smætta umræðu um heilbrigðismálin niður í umræðu um eina stofnun þó að hún sé mikilvæg.

Ég tel að nýr forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss leggi nú upp í góða vegferð og taki réttar ákvarðanir þar um uppbyggingu og stjórnum. Ég óska henni góðs gengis í því sem fram undan er því að það verður ekki létt verk að breyta því þunga kerfi.

En það sem þarf líka að gera er að hætta að tala um heilbrigðisþjónustu út frá hagsmunum starfsstéttanna sem þar starfa. Auðvitað eru það mikilvægir hagsmunir en látum vera þó að fyrrverandi formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, hv. þm. Ásta Möller, fari tiltölulega beint í það í ræðu sinni að tala um hagsmuni starfsfólks og óþægindi og óróa inni á heilbrigðisstofnunum. Heilbrigðisþjónustan er fyrir notendurna. Hún er fyrir sjúklingana og fólkið í landinu. Mér finnst íslensk heilbrigðisþjónusta og umræða um hana hafa goldið fyrir það hversu lituð hún er af hagsmunum einstakra stétta sem oft fara ekki saman.

Ég hef séð valdabaráttu milli þeirra stétta sem starfa innan heilbrigðisþjónustunnar. Það er eitt af því sem þarf að breyta. Heilbrigðisþjónustan er fyrir fólkið í landinu. Hún er fyrir notendurna og auðvitað á hún að vera eins nálægt fólki og hægt er að hafa hana. Þess vegna skiptir máli að hafa sterka og vel uppbyggða heilsugæslu um allt land. Það er fyrsta stoppið. Þangað fara flestir þegar eitthvað bjátar á. Þess vegna skiptir miklu máli að hún sé vel skipulögð og að skrefin áður en fólk leggst inn á sjúkrahús séu sem flest af því að sjúkrahús eins og Landspítalinn er bráðasjúkrahús, dýrasta tegund af heilbrigðisþjónustu sem fyrir finnst. Við þurfum að horfast í augu við það líka. Þetta er líka spurning um viðhorf notendanna, stéttanna og ekki síst stjórnvalda um að móta þá stefnu í rétta átt.

Ég ætla að leyfa mér að segja við þessa umræðu, talandi um notendurna, að mér finnst íslenskt heilbrigðiskerfi t.d. ekki hafa mætt þörfum kvenna, fæðandi kvenna ekki síst, sem skyldi. Mönnum þykir sómi að því að aka með konur yfir fjallvegi til að koma þeim á sjúkrahús eða annað í stað þess að veita þá þjónustu sem hægt er að veita í heimabyggð, hvort sem það er með heimafæðingum eða með fæðingarheimilum eða öðru slíku. Þarna hafa aðrir hagsmunir ráðið en hagsmunir fæðandi kvenna. Það er líka spurning um viðhorf og stefnu (Forseti hringir.) og hvernig breyta má því.