136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[14:15]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Frú forseti. Ég vil fagna þessu frumvarpi frá hæstv. fjármálaráðherra en verð hins vegar að viðurkenna að ég er nokkuð hissa á því hve seint það kemur fram miðað við þá áherslu sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar lögðu á málið um það bil sem ríkisstjórnarskiptin fóru fram og hve hart þeir gagnrýndu það þá að ég hefði dregið lappirnar, að því er þeir töldu, í því að afgreiða sams konar mál í þá tíð sem ég var fjármálaráðherra.

Það er hins vegar greinilegt að af hálfu hæstv. fjármálaráðherra hefur það orðið ofan á að fara varlega í þessar sakir og út af fyrir sig vil ég ekki gagnrýna það. Hvað meginaðferðafræðina varðar er lagt upp með það að fara varlega og þegar lífeyrissjóðirnir eiga í hlut ber okkur vissulega að fara varlega. Við verðum hins vegar að huga að því hver vandinn er sem við erum að reyna að bregðast við og þá hvort aðgerðin dugi til þess að veita þar einhverja úrlausn sem skiptir máli. Þegar um svona sérstaka aðgerð er að ræða þurfum við líka að leyfa okkur að vera svolítið hugmyndarík og gefa lífeyrissjóðunum svigrúm til að finna leiðir til að leysa úr þeim vandamálum sem upp kunna að koma hvað þetta efni varðar.

Það á sérstaklega við um það ójafnræði sem upp kynni að koma þegar bréf væru seld úr söfnum þessara sjóða vegna þess hversu miklar breytingar hafa orðið á skuldabréfamörkuðum á undanförnum mánuðum og missirum. Ég held að þetta sé ekki eins mikið vandamál og hæstv. fjármálaráðherra vill vera láta í þessari umræðu. Ef við erum raunverulega að tala um ójafnræði á milli þeirra sem fá útgreiðslu og þeirra sem ekki óska eftir útgreiðslu væri einfaldlega hægt að leysa þessa sjóði upp og greiða þeim út sem vilja fá greitt út en endurfjárfesta fyrir hina sem ekki vilja útgreiðslu. Þeir ættu þá að geta endurfjárfest í verðbréfum á sams konar verðlagi og var þegar sjóðurinn var leystur upp. Þá er ekki um neitt ójafnræði að ræða á milli þess sem fær greitt út og þess sem endurfjárfestir, þannig ætti það vandamál að leysast.

Það er stærra vandamál ef bréfin eru óseljanleg, ef ekki er markaður fyrir bréfin sem fjárfest hefur verið í. Þá snýr það frekar að lausafjárvanda viðkomandi sjóðs en að um ójafnræði sé að ræða. Mér finnst það skynsamleg leið, sem valin hefur verið, að vörsluaðili geti frestað útgreiðslu séreignarsparnaðarins ef um slíka stöðu er að ræða. Ef það er hins vegar stórt vandamál í kerfinu, ef mikið af bréfum eru einfaldlega óseljanleg, er ástæða til að fara varlega í þetta. Ef það er hins vegar einskorðað við tiltekna sjóði en ekki aðra veltir maður fyrir sér hvernig fjárfestingarstefnu þeirra sjóða hefur verið fyrir komið miðað við aðra sjóði.

Þetta eru sennilegast tvö stærstu vandamálin sem snúa að sjóðunum eins og staðan er núna. Það er ljóst að sá séreignarsparnaður sem greiddur verður út núna verður ekki greiddur út síðar og þetta dregur auðvitað úr þeim fjármunum sem lífeyrissjóðirnir hafa til ráðstöfunar í aðra hluti. Vel má vera að hæstv. ríkisstjórn hafi talið rétt að taka tillit til þeirra þátta líka þó að það hafi ekki beinlínis komið fram í framsöguræðu hæstv. fjármálaráðherra.

Það er hins vegar annar þáttur sem hæstv. fjármálaráðherra fjallaði aðeins um, alla vega er fjallað um það hér í greinargerðinni, en það eru hagrænu áhrifin af þessu. Þetta frumvarp er að því leytinu frábrugðið því frumvarpi sem ég flutti ásamt hv. þingmönnum, félögum mínum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, að hér er gert ráð fyrir því að þetta sé opin heimild, þ.e. að allir sem þess æskja og eiga séreignarsparnað geti leyst hann út án þess að ætlunin sé að greiða niður skuldir. Þetta hefur það í för með sér að útgreiðslur úr sjóðunum geta haft áhrif á fjármálakerfið og á stöðu þess, hversu mikið fjármagn er þar í umferð — tillaga okkar hefði ekki haft áhrif á það því að þá væri verið að færa frá einu sparnaðarforminu til annars. Í gegnum þetta væri því hægt að draga fjármuni út úr sparnaði landsmanna og út úr fjármálakerfinu. Út af fyrir sig má færa rök fyrir því, ef fólk er í vandræðum, að það ætti að vera hægt, en það er þá annað vandamál en að um sé að ræða skuldavanda sem verið sé að reyna að leysa.

Þetta gerir það að verkum að menn geta verið að leysa þetta út af öðrum hvötum en þeim að þeir séu í erfiðleikum vegna þess efnahagsástands sem nú er. Þegar það er síðan skoðað í ljósi þeirra hluta sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lagði hér áherslu á, að tekjur á þennan hátt hafa ekki áhrif til skerðingar á bótagreiðslum, er beinlínis kominn hvati, annar hvati en efnahagsástandið, til þess að taka þessa peninga út og draga peninga út úr fjármálakerfinu og þannig minnka það fé sem þar er til ráðstöfunar hjá lífeyrissjóðunum og öðrum. Það getur þá vissulega haft jákvæð hagræn áhrif í þá átt að auka veltu í þjóðfélaginu og auka tekjur ríkissjóðs eins og grein er gerð fyrir í kostnaðarmati ráðuneytisins.

Þá erum við raunverulega að tala um allt aðra hluti en uppi voru þegar umræðan um að leyfa það að taka út séreignarsparnaðinn hófst. Upphaflega snerist umræðan um það að bregðast við vanda fólks sem upp væri kominn vegna erfiðrar skuldastöðu í þessu efnahagsumhverfi. Nú er þetta orðið allt annað mál en áður var talað um og er orðið einhvers konar tæki til að auka umsvifin í þjóðfélaginu og umsvifin í hagkerfinu, og það er annað en upphaflega var talað um. Þá er ekki verið að mæta þeim vanda sem upphaflega var reynt að mæta.

Mér sýnist hins vegar að hér sé mjög varlega gengið um og takmarkanirnar séu það miklar að þetta muni hafa tiltölulega lítil áhrif til þess að hjálpa þeim sem eru í vanda — þ.e. af þeim ástæðum sem upphaflega urðu til þess að umræðan um þetta hófst — þeim sem eru í skuldavanda vegna efnahagsástandsins, og muni því að mjög litlu leyti svara þeirra vanda á næstu mánuðum miðað við það sem hér er lagt upp með. Ég ætla ekki að segja að þetta skipti ekki neinu máli en þetta skiptir miklu minna máli en margir hafa vænst og alveg örugglega, og það fullyrði ég, skiptir þetta miklu minna máli en hv. þingmenn Samfylkingarinnar lögðu upp með og reyndu að rökstyðja fyrir mér þegar við vorum í samstarfi um þessa hluti í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Ég legg áherslu á það, frú forseti, að það verði skoðað vandlega í nefndinni hvort ekki sé hægt að reyna að gera þetta þannig að það nálgist betur og leysi betur úr vanda þeirra sem miðað var við þegar umræðan hófst — að nefndin geri það án þess þó að á því verði ónauðsynlegar tafir. Ég tek undir það með hæstv. fjármálaráðherra að afgreiða þarf frumvarpið eins fljótt og auðið er til þess að leysa úr þeim vanda sem það gæti þó leyst úr en ekki þó þannig að við flýtum okkur svo mikið að við tökum ekki einn til þrjá daga til þess að sjá hvort hægt sé að ganga lengra til þess að leysa vandann.