136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[14:58]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ætla mætti af ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að bankahrunið í október síðastliðnum hafi farið fram hjá hv. þingmanni og að það eru fjölskyldur í landinu sem eru illa staddar. Það er auðvitað ekki þannig, eins og hv. þingmaður gaf í skyn, að menn séu að kynna hér mál sem ætti að leysa vanda allra. Það er alls ekki þannig, þetta er bara lítill angi af því, lítið mál til að koma til móts við fólk sem er illa statt. Að undanförnu hafa verið kynnt mál frá ríkisstjórninni sem er hluti af þessum pakka fyrir heimilin eins og greiðsluaðlögun og fleira. Hv. þingmaður kallaði þetta plástur. Ég vil alls ekki taka undir það. Þetta er leið til að koma til móts við fólk sem er illa statt núna, 70 þús. kr. fyrir einstakling og 140 þús. kr. á mánuði fyrir hjón geta munað mjög miklu, ég tala ekki um þegar fólk er atvinnulaust.

Hv. þingmaður spurði:. Hvað svo eftir þetta? Svarið við því er, eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði í ræðu sinni, að það þarf að athuga hvernig þetta gengur og menn þurfa síðan að endurskoða það og sjá svo til í framhaldinu hvort hægt er að ganga eitthvað lengra.

Í lokin vil ég síðan vísa því á bug sem hv. þingmaður sagði um vinnubrögð í þessu máli. Þetta mál hefur fengið mjög vandaðan og góðan undirbúning, hefur margoft verið rætt í þingsölum, m.a. af þeirri sem hér stendur. Ég lagði hins vegar áherslu á að það er mjög mikilvægt að þingmenn sameinist um að koma málinu í nefnd eftir faglega umræðu á Alþingi, að koma því í nefnd og út úr nefnd aftur til þingsins, þannig að þetta geti raunverulega komið að notum fyrir fólk 1. mars næstkomandi.