136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

273. mál
[16:22]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á kosningalögum, sem flutt er auk mín af níu öðrum þingmönnum úr þingflokki Samfylkingarinnar og á sumpart rót sína að rekja til þess ástands sem skapaðist í Reykjavíkurborg fyrir nokkru eða þeirrar stjórnarkreppu sem skapaðist í Ráðhúsi Reykjavíkur og þeirra miklu erfiðleika og í raun upplausnar sem skapaðist í kringum stjórn borgarinnar á þeim tíma, og síðan aftur til svipaðs ástands sem skapast hefur í ýmsum öðrum sveitarfélögum og síðan auðvitað þeirra atburða sem hafa orðið í vetur og þeirra mótmæla sem voru uppi höfð við landsstjórnina fyrr á þessum vetri.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að í kosningalögum sé settur sá öryggisventill eða neyðarhemill eða leið fyrir kjósendur til þess að fara að með lýðræðislegum hætti ef þeim misbýður algjörlega hvernig staðið er að stjórn mála í sveitarfélagi þeirra eða í landsstjórninni eða ef þar er stjórnarkreppa eða algjör upplausn þá geti kjósendur, séu þeir til þess nægilega margir, knúið fram kosningar með undirskriftasöfnun hvort heldur er í sínu sveitarfélagi þegar um sveitarstjórnina er að ræða, eða þá á landsvísu. Slíkt fyrirkomulag þekkist í ýmsum löndum. Í Bandaríkjunum er það tiltölulega algengt, þar tala menn um „recall“ og þá þarf oftlega tiltölulega lítinn hluta kjósenda til þess að knýja fram „endurkjör“, eins og það mundi útleggjast á íslensku, iðulega u.þ.b. 15% kjósenda. Slíkt fyrirkomulag er kannski að mörgu leyti auðveldara í meðförum í löndum þar sem einmenningskjördæmi eru tíð og sömuleiðis í löndum eins og Bandaríkjunum þar sem iðulega eru kosnir einstakir embættismenn eins og lögreglustjórar eða saksóknarar eða slíkir, þá hafa þeir það aðhald og agavald frá kjósendum sínum að víða er hægt að kalla fram kosningar um þá með undirskriftasöfnunum.

Hér er hins vegar gert ráð fyrir því að þröskuldurinn í þessu efni sé býsna hár. Við í Samfylkingunni höfum iðulega talað fyrir og flutt ýmis mál um þjóðaratkvæðagreiðslur og nauðsyn þeirra og talið þá hæfilegt að kannski 15, 20 eða jafnvel 25% kjósenda gætu kallað fram kosningar um einstök stórmál, segjum t.d. Kárahnjúkavirkjun eða samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða önnur slík stór deilumál í samfélaginu, eða Reykjavíkurflugvöll, til að nefna dæmi úr sveitarfélagi, eða skipulagið í miðbænum á Selfossi eða hvað það nú getur verið.

Hér er hins vegar auðvitað um miklu stærri ákvörðun að ræða. Hér er um það að ræða að knýja fram almennar kosningar og þess vegna er gerð krafa til þess að það sé meiri hluti þess fjölda sem þátt tók í síðustu kosningum á undan sem til þurfi til þess að knýja fram kosningar. Það er því algjörlega ljóst að það þarf að vera gríðarlega mikil óánægja meðal almennings, meðal kjósenda með ástand mála til þess að meiri hluti þeirra krefjist þess að fram fari kosningar. Við höfum svona á landsvísu sennilega varla önnur dæmi um svo almennar undirskriftasafnanir nema kannski Varið land frá áttunda áratugnum, og varla önnur dæmi, en þannig á það á auðvitað líka að vera. Þetta er neyðarréttur, þetta á ekki að skapa óstöðugleika í stjórnarfari en það má auðvitað gríðarlega mikið vera úr lagi farið til þess að meiri hluti kjósenda krefjist þess að kosið verði á ný.

Um leið er gríðarlega mikilvægt að kjósendur hafi þetta val og þessa leið til þess að fara vegna þess að, eins og við höfum sennilega áttað okkur vel á í vetur, er algerlega nauðsynlegt í lýðræðissamfélagi að kjósendur hafi skýrar lýðræðislegar aðferðir til þess að lýsa eindregnum vilja sínum. Það getur auðvitað leitt til þess að kjósendum finnist þeir vera sviptir valdi, hunsaðir eða að vilji þeirri skipti engu og jafnvel orðið til þess að einstaka maður grípi til óhefðbundinna aðferða og jafnvel óæskilegra aðferð móti landsstjórninni, að fólk hafi ekki skýrar leiðir til þess að setja fram málstað sinn um að ástandið sé orðið þannig að nauðsynlegt sé að kjósa, hvort sem það er í Reykjavík eða á landinu eða í einhverju sveitarfélagi öðru en höfuðborginni, þá er mikilvægt að kjósendur geti sett fram slíka skoðun sína, talað fyrir henni með lýðræðislegum hætti, barist fyrir henni og safnað við hana fylgi og ef þeir ná nægilega miklu fylgi til þess að meiri hluti kjósenda hafi skriflega lýst yfir vantrausti á fulltrúa sína á fulltrúasamkomunni, hvort sem það er Alþingi eða sveitarstjórn, á það auðvitað að ná fram að ganga. Því auðvitað vill engin fulltrúasamkoma í raun og veru og þegar menn skoða málið, hvort sem það er Alþingi eða sveitarstjórnir, sitja í óþökk meiri hluta umbjóðenda sinna. Það getur auðvitað bara einfaldlega illa gengið að halda uppi nokkru stjórnarfari við slíkar aðstæður.

Það væri hins vegar varhugavert að hafa þessa kröfu lægri en helming kjósenda vegna þess að staðreyndin er sú að ég hygg að fast að 25% kjósenda — af því að það er oft tekið til dæmis um einstakar atkvæðagreiðslur — sé félagsbundin í einum stjórnmálaflokki í landinu. Því væri auðvitað óvarlegt ef í lögum væri ákvæði sem gerði það að verkum að það nægði út af fyrir sig að félagsmenn í einum stjórnmálaflokki gætu alltaf kallað fram þingrof og almennar kosningar eða nýjar kosningar í sveitarfélagi ef þeir bara svona innan flokksins næðu saman um það. Þess vegna er nauðsynlegt að þetta mark sé býsna hátt enda er það auðvitað ekki hugsað sem virkur hluti af kosningalöggjöfinni heldur fyrst og fremst sem aðhald að okkur sem störfum í umboði kjósenda. Að við vitum það á hverjum degi að völdum okkar séu þó þau takmörk sett að ef við ekki förum vel og vandlega með þau geti kjósendur sett okkur af. Ég held að það hvetji stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir eru og hvar í landinu sem þeir starfa, til þess að leggja enn ríkari áherslu á vandaða ákvarðanatöku, á lýðræðisleg vinnubrögð og á það að kynna fyrir umbjóðendum sínum og samfélaginu öllu þær ákvarðanir sem verið er að taka og hvers vegna er verið að taka þær og verði þess vegna til þess — jafnvel þó að ákvæðinu yrði aldrei beitt — að lýðræði okkar verði virkara og afleiðingar frumvarpsins fyrir þróun stjórnarhátta í landinu verði þar af leiðandi jákvæðar.

Þá er líka gert ráð fyrir því í frumvarpinu að meiri hluti sveitarstjórnar geti kallað fram kosningar. Það þarf að vísu aukinn meiri hluta, þrjá fjórðu hluta, mætti út af fyrir sig hugsa sér að það væru tveir þriðju hlutar eða eitthvað slíkt, en svo einkennilega vill til — eða sumum kann að finnast það einkennilegt — að sveitarstjórn getur ekki efnt til kosninga jafnvel þó að hún hafi sjálf misst trú á sér. Jafnvel þó að hún sé sjálf orðin sannfærð um að hún geti með engu móti stjórnað sveitarfélagi sínu er henni skylt að sitja frá þeim sveitarstjórnarkosningum sem hún var kosin á til næstu sveitarstjórnarkosninga. Þetta er gert til þess að tryggja stjórnfestu í sveitarfélögunum eða það eru röksemdirnar á bak við það, til þess að knýja menn til að ná saman um að stjórna sveitarfélagi.

Þó að þau rök séu vissulega gild held ég að það blandist engum hugur um að ef t.d. aukinn meiri hluti borgarfulltrúa í Reykjavík hefur misst trúna á borgarstjórnina í Reykjavík og ályktar um að hún eigi að víkja og þeir sjálfir eigi að víkja og að nauðsynlegt sé að efna til kosninga, þá hlýtur auðvitað að vera komið upp algerlega sérstakt ástand og aðstæður sem ómögulegt er fyrir íbúa viðkomandi sveitarfélags að búa við, að í sveitarstjórninni sitji bæjarfulltrúar sem séu búnir að missa trúna á sjálfum sér, nái ekki saman um meiri hluta í einu eða neinu og vilji helst af öllu fara frá og efna til kosninga en megi það ekki af því að landslög banni það. Þess vegna gerum við ráð fyrir því að aukinn meiri hluti sveitarstjórnarmanna geti á miðju kjörtímabili kallað fram kosningar rétt eins og íbúarnir geta kallað fram kosningar hvenær sem er. En hvað sveitarstjórnarkosningunum viðvíkur gerum við ráð fyrir því að sú sveitarstjórn sem þá yrði kjörin sæti bara út það viðkomandi kjörtímabil þannig að eftir sem áður færu alltaf fram í landinu almennar sveitarstjórnarkosningar á fjögurra ára fresti á sama degi, þannig að þetta ákvæði yrði ekki til þess að raska því þannig að kjördagar til sveitarstjórnarkosninga færu að verða mismunandi og kjörtímabil frá einu sveitarfélagi til annars.

Öðru máli gegnir hins vegar um það ef knúin er fram atkvæðagreiðsla til Alþingis. Þar er gert ráð fyrir því að það þing sem þá er kjörið hafi fullt kjörtímabil til setu, fjögur ár, enda kveðið á um það í stjórnarskrá lýðveldisins að kjörtímabil Alþingis og alþingismanna sé fjögur ár og þess vegna auðvitað sjálfsagt og eðlilegt og nauðsynlegt að frumvarpið sé í samræmi við þau ákvæði.

Ég held að það frumvarp sem við erum hér að mæla fyrir svari ákveðnum missmíðum sem ég tel að við höfum séð vera á löggjöf okkar um kosningar og lýðræðið í landinu. Ég held að engum blandist hugur um að það ástand sem hér skapaðist í vetur utan við þinghúsið, það ástand sem skapaðist á sínum tíma í Ráðhúsi Reykjavíkur og það ástand sem hefur skapast í sveitarfélögum hér og þar í áranna rás sé algjörlega óviðunandi og að það sé nauðsynlegt að við hugum að því að í kosningalögum okkar séu aðferðir og leiðir fyrir kjósendur til þess að bregðast við slíku ástandi. Það er auðvitað skelfilega dýrt fyrir hvert samfélag ef stjórnarkreppa skellur á, hvort heldur er í landsstjórninni eða til að mynda höfuðborginni, því að afleiðingar slíkrar stjórnarkreppu geta auðvitað verið býsna dýrkeyptar fyrir kjósendur sem við sitjum í umboði fyrir. Það er auðvitað megintilgangur málsins, þ.e. að undirstrika að við sem hér sitjum og þeir sem sitja sem fulltrúar í sveitarstjórnunum, við sitjum í umboði kjósenda og að kjósendur hafi það umboð að geta afturkallað kjör okkar ef þeir telja að við höfum farið svo langt út fyrir það sem upp var lagt með að ekki verði lengur við unað.