136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

15. mál
[17:41]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er rétt að þessi ríkisstjórn hefur ekki mikil áform um endurbætur í sjávarútvegsmálum. Þessi ríkisstjórn situr í 80 daga ef henni endist líf til þess sem ég held að gerist nú og það er ekki við því að búast að hún geti látið til sín taka með þeim hætti, verkefni hennar eru ærin fyrir. Hins vegar er það svo, sem ég gleymdi nú að geta um, að í verkefnaskrá hennar er stigið skref í átt að þessu, nefnilega að sjá svo til eða fara fram á það við þingið að það samþykki stjórnarskipunarlög þar sem kveðið verði á um auðlindir í þjóðareign. Ég geri ráð fyrir að þau lög verði með svipuðum hætti og það frumvarp sem hér er til umræðu. Það er fyrsta skrefið til þess að ráða bót á þeim mannréttindabrotum sem þingmaðurinn talar réttilega um og til þess að koma bæði skynsemi og réttlæti í sjávarútvegsskipan okkar.

Ég vonast til þess að næsta ríkisstjórn geti síðan stigið fleiri skref í þessu og ég var að bjóða hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur upp í þann dans hér áðan og mig munar ekkert um að bjóða hv. þm. Grétari Mar Jónssyni að dansa hann með okkur eftir kosningar.