136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

virðisaukaskattur.

48. mál
[18:19]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi, sem við flytjum, ég og hv. þm. Helgi Hjörvar, um virðisaukaskatt, þ.e. um að setja vefbækur, rafbækur og landakort sem nú eru í efra þrepi virðisaukaskatts í neðra þrepið, 7%, þar sem hliðstæðar vörur eru. Þetta frumvarp var flutt á síðasta þingi en komst þá ekki til umræðu, var lagt fram nokkuð seint á þinginu, og er nú endurflutt óbreytt og mér þykir sýnt að það muni nú komast til nefndar og fá umsagnir, sem er fyrsta skrefið í ferli sem ég efast ekki um að endi með því að málið fari í gegn.

Lagt er til að vefbækur, rafbækur, bækur á geisladiskum og landakort færist á neðra þrep virðisaukaskatts, 7%, þar sem hefðbundnar bækur og hljóðbækur eru nú. Í a-lið 1. gr. er gerð tillaga um vef- og rafbækur en í b-lið bækur á geisladiskum sem eru keyptar og settar í drif eða hlaðið í tölvur í eitt skipti fyrir öll og ég held að menn þekki nokkuð vel kaup á slíkum bókum í bókabúðum eða annars staðar.

Vefbók er hins vegar bókartexti sem lesendur kaupa sér aðgang að á vefnum eða hlaða niður af öðru vefsetri gegn gjaldi. Eðli málsins samkvæmt eru slíkar bækur einkum handbækur eða orðabækur og má nefna ýmsar orðabækur sem hægt er að fá á vefsetrinu ordabok.is og ýmsar bækur á vefsetri sem heitir snara.is og þarf reyndar ekki að greiða fyrir nú en stendur til að selja aðgang að þegar búið er að fullbúa þann vef.

Rafbækur þekkja menn kannski síður en þá er bókartexta hlaðið í tölvur, síma eða sérstök tæki af netinu og er þar um að ræða alls kyns bækur, orðabækur og handbækur, skáldsögur eða skemmtirit af ýmsu tagi. Rafbókunum er hlaðið í grip af þessu tagi hér, sem við höfum leyft okkur að kalla bókhlöðu, sem er kannski ekki heppilegt nafn en tekið upp vegna þess að reynt hefur verið að þýða i-Pod sem tónhlöðu og þetta gæti þá verið bókhlaða. Menn fara þá á vefinn og kaupa sér bók í tækið og geta svo lesið hana í því. Þetta er létt tæki og þægilegt að þurfa ekki að dragnast með þunga bók í eftirdragi. Ég er með á þessu — reyndar á ensku því að íslenskar bækur eru ekki komnar í þetta — rit Sir Arthurs Conans Doyles um Sherlock Holmes og hinn kæra Watson.

Til að taka af öll tvímæli nefnum við í frumvarpstextanum hliðstæða gagnagrunna vegna þess að ekki er allt útgáfuefni á vefnum eða í stafrænu formi til sem prentbækur þannig að hér er reynt að ná utan um nýjungar í bóksölu eða sölu á texta.

Hitt efnisatriði frumvarpsins varðar landakort, sem okkur flutningsmönnum þykir ósanngjarnt og ótilhlýðilegt að séu höfð í öðrum virðisaukaskattsflokki en bækur. Ég er hér með landakort sem gefið er út af Máli og menningu og er, eins og menn sjá, venjulegt landakort. Á kortinu sem ég sýni hér til vitnis eru Vestfirðir og Norðvesturland, sem t.d. hv. þm. Jón Bjarnason þekkir einkar vel. Á bakhlið kortsins er fjallað um fræga staði og ferðamannapláss í landshlutanum með texta og myndum. Þetta kort er með 24,5% virðisaukaskatti.

Hér er ég svo aftur með kortabók sem gefin er út af sama forlagi og í henni er í raun og veru sama kortið, þ.e. af Íslandi öllu, og hér þetta sem forseti hlýtur að kannast við á kortinu og þingmenn sjá hér í salnum. Hér er miklu minni texti en á kortinu, þetta er hins vegar prýðileg bók að nota, sérstaklega á ferðalagi í bíl, og hefur þann mikla kost fyrir notandann að hún ber aðeins 7% virðisaukaskatt. Þegar þetta er borið saman, kortið annars vegar — en ef vel ætti að vera þyrftu þau að vera fjögur til að samsvara þessari bók — þá sjá menn hversu fáránlegt er að gera upp á milli prentgripanna og þar með torvelda með tæknilegum hætti það sem ætti að vera viðskiptaleg og menningarleg ákvörðun bæði útgefanda og kaupanda hverju sinni.

Um breytingarnar sem felast í frumvarpinu eiga auðvitað við öll sömu rök og um lægri virðisaukaskatt af sölu prentaðra bóka, hljóðbóka og hljómdiska, bæði menningarleg rök og rök af samkeppnistoga um svokallaðar staðkvæmar vörur, þ.e. vörur sem geta komið hver í annarrar stað og í fræðunum er talið mikilvægt að ríkisvaldið og skattayfirvöld standi þannig að verki að ákvörðun um viðskipti með staðkvæmar vörur sé ekki trufluð af mismunandi skatti eða mismunandi tæknilegum útfærslum yfirvalda. Þetta var reyndar það sem Árni M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, núverandi hv. þingmaður, nefndi sérstaklega í nóvember 2006 þegar virðisaukaskattur á geisladiskum, hljómplötum og segulböndum var færður úr 24,5% í 7%.

Í frumvarpi þáverandi fjármálaráðherra segir, með leyfi forseta:

„Er það gert til að jafna samkeppnisstöðu tónlistarútgefenda við bóka- og tímaritaútgefendur en bent hefur verið á að geisladiskar með tónlist séu staðkvæmdarvara við bækur og tímarit og því óeðlilegt að önnur varan beri 24,5% virðisaukaskatt en hin 7%.“

Þetta á að breyttu breytanda með nákvæmlega sama hætti við þessar vörur hér, kortin á móti kortabókinni og vefbækur og rafbækur og geisladiska á móti hinni prentuðu bók.

Það er skemmtileg tilviljun og fróðlegt að Steingrímur J. Sigfússon, núverandi hæstv. fjármálaráðherra, sem tók við af Árna M. Mathiesen, tók þátt í umræðunni í nóvember 2006 og sagði þá, með leyfi forseta:

„Það er sömuleiðis ánægjulegt að menningarstarfsemi, bækur, blöð, tímarit og einnig geisladiskar og hljómplötur fá þarna sterkari stöðu með lækkun almenna þrepsins úr 14% niður í 7, og það að geisladiskar, hljómplötur og segulbönd með tónlist og annað því um líkt kemur þarna inn einnig.“

Hér hafa því tveir fjármálaráðherrar verið leiddir fram til að bera vitni um réttmæti þeirrar óskar sem fram er borin í frumvarpsforminu.

Steingrímur J. Sigfússon, hæstv. núverandi fjármálaráðherra, minntist á menningarleg rök og þau eru auðvitað fyrir hendi, bæði menningarleg og kannski menningartæknileg, ef svo má segja. Hljómplötur og bækur eru sama listræna afurðin og má segja að vefbækur og rafbækur séu sama listræna eða fræðilega afurðin. Nú á tímum skiptir verkið máli en ekki miðillinn. Menn þekkja það ágætlega í fjölmiðlun nútímans þar sem efninu er veitt um texta með mynd eða hljóði og þar skiptir kannski ekki öllu máli hver miðillinn er. Miðlarnir eru margir en efnið að einhverju leyti eitt og hið sama og þetta þekkja menn úr langri umræðu um fjölmiðlafrumvarpið hér um árið.

Um þetta er það sérstaklega að segja að Íslendingar hafa — við erum nú ekki að öllu leyti misheppnuð þjóð og höfum gert ýmislegt gott þó að við strjúkum okkur nú um ennið yfir glópsku og kjánahætti okkar allra og þó sérstaklega ýmissa forustumanna okkar — líka gert ýmislegt gott í gegnum tíðina og hafa m.a. haft vit á því að fylgjast nokkuð náið með tækniþróun, ekki síst tölvutækninni síðan hún kom, með góðum árangri. Eitt af því sem var styrkur okkar í þeirri þróun þegar Íslendingar hófu tölvunám var að — og sem þeir luku eða temja sér enn með þeim árangri að hér er mikið tölvulæsi miðað við aðrar þjóðir, útbreidd netnotkun og allur almenningur þekkir vel til þessara hluta og er fljótur að tileinka sér nýjungar. Farsímar og þriðja kynslóð farsíma — eða hvað sem má nú kalla nýjustu farsímana — eru orðnir mjög útbreiddir og ég geri ráð fyrir að tæki eins og þetta verði á hvers manns borði eftir nokkur ár, bókhlaðan sem við leggjum til að þetta verði kallað, a.m.k. þangað til við finnum betra nafn.

Eitt af því sem gerði þetta mögulegt var að stjórnvöld sýndu í upphafi frumkvæði í skattamálum og þing og framkvæmdarvald sýndu skilning á sérstöðu fámenns málsamfélags í menningarmálum og þörfinni á því að Íslendingar gætu tileinkað sér nýjungar af þessu tagi fljótt og vel. Ég held ég fari ekki með staðlausa stafi þegar ég nefni nafn Ragnars Arnalds, fyrrverandi þingmanns, menntamálaráðherra og fjármálaráðherra, sem mig minnir fastlega að hafi beitt sér fyrir því að fella niður söluskatt af tölvum þegar þær voru að komast hér í almenna notkun, sem var sennilega um og upp úr 1980 þegar hann var ráðherra. Þetta skipti feikilega miklu máli fyrir útbreiðslu tölvunnar og þar með fyrir atvinnu- og menningarlíf á Íslandi. Á þessum vegi eigum við að halda áfram og ég bendi á það í þessu sambandi, því hér er í báðum tilvikum um að ræða nýjungar; aðra tæknilega með vef-, raf- og geisladiskabókum, og hina kannski ekki alveg eins nýja, að setja kort í bók, en þó með þeim hætti að kortaútgáfa hefur margfaldast hér á síðustu árum og eflst, m.a. vegna þess að útgáfa korta komst á hendur venjulegra forlaga og var ekki bara bundin við Landmælingar Íslands eins og áður var.

Ég held ég hafi þessi orð ekki fleiri og legg að lokum til að frumvarpið gangi til efnahags- og skattanefndar. Mér þætti vænt um að fulltrúar í menntamálanefnd skoðuðu málið og jafnvel að fyrrnefnd nefnd fæli menntamálanefnd að gefa á því álit en vænti þess að um málið verði fjallað a.m.k. í efnahags- og skattanefnd, beðið um umsagnir og það tekið í fullri alvöru sem bæði tæknilegt framfaramál og menningarmál fyrir okkur á þeim tímum sem við nú lifum. Við megum heldur ekki gleyma því að lífið heldur áfram og við eigum að tileinka okkur ný vinnubrögð á þessum nýju tímum, gera hlutina vel þó að við þurfum að gera þá ódýrar og öðruvísi en við hugðum lengi.