136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

svar við fyrirspurn.

[10:46]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Þann 19. desember sl. lagði ég fram fyrirspurn til fjármálaráðherra um bifreiðahlunnindi starfsmanna hjá ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

1. Hve margir bankastarfsmenn voru á bifreiðum í eigu nýju og gömlu ríkisbankanna 1. desember sl., sundurliðað eftir bönkum?

2. Hve margir fyrrverandi starfsmenn ríkisbankanna voru á slíkum bílum 1. desember sl., sundurliðað eftir bönkum?

3. Hvert er skattalegt hlunnindamat á hverja bifreið á mánuði?

4. Hver tekur ákvörðun um hver fái slík bifreiðahlunnindi?

5. Tíðkast slík hlunnindi almennt í öðrum ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum?

Nú tveimur mánuðum síðar hafa engin svör fengist nema frá Glitni. Þar kemur fram að á þriðja tug starfsmanna keyrir á bílum á kostnað bankans. Ég ítrekaði beiðni mína um svör í síðustu viku og þá lofaði hæstv. forseti að beita sér í málinu. Enn hafa hins vegar engin svör borist. Bifreiðahlunnindi virðast vera alveg óskaplegt leyndarmál hjá þessum fyrirtækjum og stofnunum.

Því verð ég að segja að mér svelgdist töluvert á morgunkaffinu í morgun þegar ég las frétt um bílaeign ríkisbankanna í Morgunblaðinu. Af einhverjum ástæðum virðist blaðamaður Morgunblaðsins eiga auðveldara með að nálgast upplýsingar um bílaeign (Forseti hringir.) bankanna en Alþingi Íslendinga. Því spyr ég: Hvað hyggst hæstv. forseti gera í sambandi við þetta?