136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum að nálgast mjög, ég og hv. þingmaður, og ég get ekki heyrt annað en hv. þingmaður sé sammála mér um að hér sé ekki mikið gagnsæi. Sömuleiðis erum við sammála um að vinnubrögðin mættu vera faglegri, það væri æskilegra af því að ég held að þeir aðilar sem ættu að veita umsögn eru þeir aðilar sem þekkja þessi mál best og ég veit ekki hverjir eru betur til þess fallnir en þeir seðlabankar sem eru í Evrópu. Varðandi samvinnuna er það þannig að fram til þessa hafa allir flokkar komið að málum eins og þessu. Nú er breyting á, þannig er það bara. Ef hv. þingmanni finnst það vera hið besta mál þá er það bara svo. Ég get alveg verið sammála hv. þingmanni um að það skipti máli að menn séu markvissir í málflutningi sínum en ég held að það sé hins vegar hæpið að fara að gefa þingmönnum einkunn hvað þetta varðar en allir sem hafa fylgst með störfum þingsins vita þó alveg hreint og klárt að hér er víðs fjarri um eitthvert málþóf að ræða. Ef svo væri mundi þessi umræða standa svo dögum skiptir.