136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

skuldbreyting húsnæðislána.

[13:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Hæstv. forseti. Skuldir eru að sliga íbúa landsins. Daglega berast fréttir af erfiðleikum fólks við að halda íbúðarhúsnæði sínu og greiningarfyrirtæki áætla að tíu fyrirtæki verði gjaldþrota dag hvern.

Morgunblaðið fjallar um vanda húseigenda í morgun í framhaldi af skýrslu ASÍ um skuldir heimilanna. Þar kemur fram að eigið fé margra húseigenda er upp uppurið eða neikvætt og greiðslubyrði hafi þar að auki þyngst gífurlega. Því er ekkert skrýtið að manni bregði við þegar hæstv. félagsmálaráðherra, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, lýsir því yfir í svari sínu við fyrirspurn hv. þm. Helgu Sigrúnar Harðardóttur um gengistryggð lán að ekki sé tímabært að bregðast við með skuldbreytingu lána eða afskriftum þó að gengistryggð lán heimilanna hafi hækkað ákaflega mikið sem og verðtryggð lán.

Ég spyr: Hvenær er tímabært að bregðast við með skuldbreytingu lánanna eða hreinum afskriftum þegar fjöldi Íslendinga hefur misst húsnæði sitt eða þegar enn fleiri hafa misst atvinnuna?

Í gær kynnti forusta Framsóknarflokksins tillögur um niðurfellingu húsnæðislána. Í henni leggjum við til að öll húsnæðislán verði færð frá bönkunum til Íbúðalánasjóðs miðað við þá afskrift sem varðar lánasöfnun við flutninginn frá gömlu bönkunum til nýju bankanna. Skylda okkar er umtalsverð. Íbúðalánasjóður veitir síðan flata 20% niðurfellingu skulda vegna allra húsnæðislána hjá sjóðnum og þannig verður tryggt jafnræði milli þeirra sem áttu húsnæðislán hjá bönkunum og Íbúðalánasjóði. Það byggist á því að gömlu bankarnir fengu lánasöfn gömlu bankanna með verulegum afslætti og erlendir kröfuhafar eru í langflestum tilvikum búnir að afskrifa nánast allar sínar eignir í gömlu íslensku bönkunum. Við teljum að ef þeir skuldsettu mundu ná sér aftur á strik væri von til að fá jafnvel eitthvað upp í þessar skuldir. Jafnframt er mikilvægt fyrir óskuldsett eða lítið skuldsett heimili að vandamálið færist ekki yfir á þau með lækkandi fasteignaverði og almennri verðhjöðnun.

Því ítreka ég spurningu mína til hæstv. félagsmálaráðherra: Hvenær verður tímabært að bregðast við með skuldbreytingu lánanna eða hreinum afskriftum? Hver ætlar að setjast í dómarasæti um hver eigi rétt á að fá niðurfellingu og hver ekki?