136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

staða og starfsumhverfi íslenskrar verslunar.

[14:11]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. viðskiptaráðherra fyrir að ræða stöðu og starfsumhverfi íslenskrar verslunar í utandagskrárumræðu hér í dag. Staðan er mjög alvarleg nú um stundir.

Verslunarfyrirtækin veita um 25.000–30.000 manns atvinnu á hverjum tíma og eru þá ótalin störf sem tengjast henni, m.a. í banka- og flutningastarfsemi. Atvinnuleysið er nú um 10% og fer vaxandi. Þetta eru aðstæður sem við eigum ekki að venjast og við viljum snúa þeim við. Áhrif þess á heimilin, fyrirtækin og samfélagið allt eru gríðarleg. Okkur er öllum ljóst að hagsmunir fyrirtækjanna og heimilanna eru samofnir og því þarf að bregðast við.

Ástæðan fyrir því að ég tek upp þessa umræðu á hinu háa Alþingi er að hætta er á frekara niðurbroti í verslun með þeim afleiðingum að enn fleiri missa atvinnu sína. Þótt ég hafi kosið að ræða sérstaklega um stöðu verslunarfyrirtækja er staðan í öðrum atvinnugreinum mjög svipuð.

Við núverandi aðstæður er sérhvert atvinnufyrirtæki og sérhvert starf dýrmætt. Um þau þurfum við að standa vörð. Bankarnir hafa metið það svo að um 70% fyrirtækja í landinu séu það sem kallað er tæknilega gjaldþrota. Það á ekki síst við um verslunarfyrirtæki sem í uppsveiflu í bankaheiminum skiptu mörg um eigendur með skuldsettri yfirtöku.

Því hefur verið spáð að um 3.500 fyrirtæki í landinu verði gjaldþrota á þessu ári. Ef þær spár rætast munu fimmfalt fleiri fyrirtæki fara á hausinn í ár en á síðasta ári með tilheyrandi tapi á störfum. Mörg verslunarfyrirtæki hafa dregið saman seglin og leita allra leiða til hagræðingar, hafa m.a. sagt upp fólki, minnkað vörubirgðir og leitað nýrri og betri samninga við birgja. Þannig hefur t.d. stórt verslunarfyrirtæki sagt upp þriðjungi starfsmanna sinna á síðustu mánuðum, um 300 manns, en á sama tíma hefur vöruveltan í magni dregist saman um 50%.

Reyndar er vert að benda á hina hliðina sem vegur að einhverju leyti á móti, verslun Íslendinga í útlöndum hefur dregist verulega saman og má því segja að hún hafi flust heim og að á sama tíma hafi lágt gengi krónunnar laðað ferðamenn til landsins og sala til ferðamanna aukist að umfangi.

Það breytir því hins vegar ekki að opinberar tölur benda til þess að verslunin hafi dregist mikið saman á síðustu vikum. Þannig hefur komið fram í athugunum Rannsóknarseturs verslunarinnar að dagvöruverslun dróst saman um 7% á milli ára frá janúar 2008 til janúar 2009 á föstu verðlagi. Á sama tíma var um 11% samdráttur í fataverslun, 18% samdráttur í skóverslun og velta í húsgagnaverslunum er um 22% minni en á sama tíma í janúar í fyrra á föstu verðlagi. Hún var reyndar um 50% minni í desembermánuði samanborið við árið á undan.

Bílamarkaður með nýjar bifreiðar hefur algerlega hrunið. Það sem af er á árinu eru nýskráningar bifreiða um 15% af því sem var á sama tíma í fyrra. Þær höfðu ekki verið jafnfáar í desember sl. frá því í september 1970, þ.e. fyrir tæplega 40 árum. Það er í sjálfu sér ekki óvænt þar sem veik króna hefur hækkað verð á nýjum bílum upp úr öllu valdi. Aðrar verðhækkanir eru umtalsverðar. Dagvara og fatnaður hefur hækkað um 32–33% á 12 mánaða tímabili og kaupmáttarrýrnun nálgast 10%.

Það er ljóst að atvinnuleysi innan verslunarinnar fer vaxandi. Á föstudaginn voru tæplega 16.000 manns skráðir atvinnulausir. Það lætur nærri að af þeim hafi um 3.000 manns misst störf innan verslunarinnar. Einungis í byggingariðnaðinum eru fleiri atvinnulausir. Rekstrarumhverfi íslenskra verslunarfyrirtækja einkennist af háum vöxtum, háu gengi og erfiðleikum í aðgengi að lánafyrirgreiðslu í bönkunum. Verð á vörum hefur hækkað um leið og heimilin draga saman í neyslu. Leiguverð er víða hátt og mörg fyrirtæki eru með bundna leigusamninga til margra ára í húsnæði sem þeir hafa tekið úr notkun vegna samdráttar. Hátt vaxtastig er að ganga af fyrirtækjunum dauðum. Vaxtakostnaður gengur hratt á eigið fé skuldsettra fyrirtækja og getur aukið á gjaldþrot fyrirtækja sem óhjákvæmilega stefnir í.

Ég spyr því hæstv. viðskiptaráðherra:

1. Hvernig munu stjórnvöld bregðast við erfiðri stöðu verslunarinnar í landinu og forða henni frá frekara hruni með þeim afleiðingum að atvinnuleysi í greininni aukist enn frekar?

2. Á verkefnalista nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að leitað verði leiða til að lækka vexti eins fljótt og kostur er og að tímasett verði áætlun um rýmkun hafta. Hvenær verður lögð fram verkefnaáætlun ríkisstjórnarinnar til að standa undir þessari yfirlýsingu?

3. Gengi gjaldmiðilsins hefur afgerandi áhrif á verðlag vöru og þar með afkomu greinarinnar. Fyrirtækin kalla eftir því að komið verði á jafnvægisgengi sem bæði innflutningur og útflutningur geti starfað við. Mun ríkisstjórnin beita sér í þessum efnum?

4. Íslensku bankarnir hafa reynst þess vanmegnugir að veita atvinnulífinu þá þjónustu sem það þarf á að halda og spurt er eftir aðgerðum stjórnvalda til að bæta þetta ástand. Gjaldeyrisþurrð hamlar og gjaldeyrishöftin hafa gert fyrirtækjunum erfitt fyrir. Munu stjórnvöld beita sér til að bæta þetta ástand?

5. Greiðslutryggingafélög í Evrópu hafa neitað að tryggja greiðslur krafna á íslensk fyrirtæki. Hyggjast stjórnvöld gera eitthvað til að liðka þar til?

Forsenda þess að hægt sé að endurreisa heimilin í (Forseti hringir.) landinu er að endurreisa atvinnulífið. Þess vegna spyr ég um aðgerðir stjórnvalda til að koma í veg fyrir frekara hrun verslunar í þessu landi.