136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

gjaldfrjáls göng.

304. mál
[14:49]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu, bæði fyrirspyrjanda og þingmönnum. Hér er rætt um veigamikið atriði sem er gjaldtaka í Hvalfjarðargöngum, í því mikla og góða verki sem varð tíu ára á síðasta ári. Við vitum hvernig var stofnað til þess verks, það var áætlað að veggjöldin mundu borga niður lánin eins og er að gerast núna.

En, eins og ég sagði hér áðan, sitt sýnist hverjum. Ég vil taka undir það sem komið hefur fram, m.a. frá formanni samgöngunefndar Steinunni Valdísi Óskarsdóttur sem fjallaði á ákaflega faglegan hátt um þætti sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir að ræða um, þ.e. að við hugum að því hvernig við ætlum að afla fjár til vegaframkvæmda á komandi árum.

Það er nokkuð ljóst, virðulegi forseti, að bensíngjald, olíugjald og þungaskattur munu ekki og eru ekki að gefa okkur jafnmikið í tekjur til vegaframkvæmda og var áður fyrr. Þau gjöld höfðu ekki hækkað í mörg, mörg ár þegar þau hækkuðu síðast.

Umhverfisvænir bílar sem nú streyma til landsins og munu gera það á næstu árum munu ekki borga slík gjöld til ríkissjóðs. Og hvernig ætlum við þá að haga skattheimtunni? Virðulegi forseti. Ég held að langeðlilegast væri að allir stjórnmálaflokkar settu það á dagskrá hjá sér að ræða þau mál. Það má alveg segja að það sé sanngirnismál, við höfum rætt það ég og hv. þm. Guðbjartur Hannesson, á upphafsárum þessa kjörtímabils, að eigi jafnræði að gilda um þetta þá þurfi gjaldheimta að vera á fleiri stöðum.

Virðulegi forseti. Þetta er veigamikið atriði í þessari umræðu vegna þess að við verðum að skoða hvernig við ætlum að fjármagna vegaframkvæmdir næstu ára, það mikla verk sem þarf að vinna, vegna þess að þeir sérstöku tekjustofnar sem eru til munu aldrei standa undir (Forseti hringir.) öllu því mikla átaki sem við þurfum að fara í á komandi árum.