136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:13]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er tekið til 3. umr. frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. Áður en ég kem að meginefni ræðu minnar vil ég þakka fyrir gott samstarf í nefndinni, hrósa formanni nefndarinnar sérstaklega fyrir vönduð og fagleg vinnubrögð og öllum þeim stjórnmálaflokkum sem áttu sæti í nefndinni. Ég held að við höfum gætt þeirra sjónarmiða að vinna þetta frumvarp eins vel og kostur var á en um leið reynt að hraða því í gegnum þingið. Þó hefur það ekki verið á kostnað skynseminnar og faglegra vinnubragða.

Á mánudaginn var að ákveðið var að fá sérfræðing frá J.P. Morgan. Ég held að allir séu sammála um að ef sérfræðingar eða umsagnaraðilar eru fengnir á fund nefndarinnar beri að hlusta á það sem þeir hafa að segja. Ég mat það þannig að umsögn hans um þá skýrslu sem við höfum núna undir höndum sé einfaldlega það merkileg að við gætum vel setið á okkur í tvo daga og beðið eftir skýrslunni og farið yfir þær tillögur sem í henni felast.

Eftir að það var ákveðið má segja að þjóðin hafi farið á hvolf og málinu einhvern veginn verið snúið á haus og gefið í skyn að það snerist um eitthvað allt annað. Það er alveg rétt, þjóðin hefur mátt þola illdeilur tveggja fylkinga sem hafa verið að berjast um völdin í landinu. Þessar illdeilur hafa birst þjóðinni áður, t.d. í fjölmiðlafrumvarpinu sem við sjáum í dag að við hefðum átt að vanda okkur betur við og láta ekki umræðuna í þjóðfélaginu stöðva okkur, í Baugsmálinu svokallaða sem hefur kostað þjóðfélagið yfir milljarð, leyfi ég mér að fullyrða, í málefnum RÚV ohf. og nú þessu máli. Kannski eiga þessar illdeilur stóran þátt í þeim vanda sem þjóðin glímir við í dag. Þær eiga eflaust sinn þátt í því hruni sem varð í íslensku efnahagslífi og bankakerfinu nánast í heild sinni.

Ég held að almenningur sé algjörlega búinn að fá nóg af þessum illdeilum og ég segi: Hingað og ekki lengra. Ég tek ekki þátt í þessum skrípaleik. Við sem erum á Alþingi eigum að hefja okkur yfir illdeilur sem eru úti í samfélaginu og við eigum að berjast fyrir því að mál séu unnin faglega frá upphafi til enda.

Ég hef alltaf sagt að það þurfi að fara í gegnum vinnubrögðin á Alþingi frá því að ég tók hér sæti fyrir tæplega tveimur árum. Ég hef barist fyrir því að skilin milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds verði skýrari. Þó að við breytum hér eftirlitsstofnunum samfélagsins, Seðlabankanum og þá væntanlega Fjármálaeftirlitinu seinna meir, hefur þrígreining ríkisvaldsins brugðist. Eftirlit eins hluta þess með öðrum hefur einfaldlega ekki verið til staðar og við horfum upp á að framkvæmdarvaldið hefur algjöra yfirburði yfir löggjafarvaldinu þangað til kannski núna. Við erum með minnihlutastjórn þar sem þingmenn eru bundnir af sannfæringu sinni og láta núverandi stjórnvöld ekki komast upp með að leggja fram frumvörp sem eru illa unnin og keyrð í gegnum þingið með ofbeldi. Ég verð að taka það sérstaklega fram að þingið beið mikinn hnekki þegar forseti þess ákvað að stöðva lýðræðislega umræðu á mánudaginn. Það er einhver grófasta misbeiting á valdi í sögu íslenska lýðveldisins. (Gripið fram í.) Það er nokkuð sem þurfum að ræða á næstu dögum og ég legg til að hæstv. forseti komi fram og gefi fullnægjandi skýringar á því að þetta var haft með þessum hætti.

Ég hef sagt frá upphafi að þjóðinni sé fyrir bestu að reglum um yfirstjórn Seðlabankans sé breytt. Ég var fyrsti flutningsmaður að frumvarpi sem við framsóknarmenn lögðum fram sem kvað á um að stöður seðlabankastjóra yrðu auglýstar og að faglega yrði staðið að ráðningu þeirra. Ég sagði strax í kjölfar bankahrunsins þegar umræðan snerist strax öll á hvolf og fór að snúast um þessar illdeilur, sem ég benti á í upphafi máls míns, að engum ætti að blandast hugur um að faglega væri unnið í Seðlabanka Íslands. Hvort sem menn hafa gert mistök eða ekki er hagsmunum þjóðarinnar stundum betur borgið með því að þeir víki.

Hvort sem við sættum okkur við það eða ekki tel ég rétt að yfirmönnum Fjármálaeftirlitsins hafi verið sagt upp en þeir verða samt að viðurkenna að það væri ósanngjarnt að mennirnir sem tóku til starfa eftir að bankahrunið varð, þyrftu að víkja líka. Við verðum í þessu sambandi að hugsa um hagsmuni þjóðarinnar og ekki leyfa öðrum sjónarmiðum að eyðileggja þá umræðu.

Ég sagði líka eftir að hæstv. forsætisráðherra sendi seðlabankastjórum bréf að ég hefði orðið fyrir vonbrigðum með að þeir skyldu ekki ákveða sjálfir að víkja. Ég sagði strax í umræðunni — menn geta lesið það á visir.is — að þeir ættu að taka það upp hjá sjálfum sér að stíga niður. Ég sagði einnig að þannig væri hagsmunum allra betur borgið. Þrátt fyrir þetta hefur ítrekað verið reynt að gera allt þetta mál tortryggilegt, fjölmiðlamenn hafa ítrekað spurt mig hvort ekki séu einhverjir annarlegir hagsmunir í húfi og reynt að sverta þessa umræðu frá öllum hliðum hennar. Ég tek fram að ég hef enga aðra hagsmuni í þessu máli en þá að við Íslendingar fáum betri seðlabanka sem nýtur trausts, ekki bara innan lands heldur líka erlendis.

Eftir að við hlustuðum á sérfræðinginn frá J.P. Morgan ákvað meiri hluti nefndarinnar að bíða eftir skýrslunni sem von var á innan tveggja daga. Þessi skýrsla hafði verið mikið í umræðunni, í fjölmiðlum úti um allan heim, sérstaklega hjá þeim fjölmiðlum sem fjalla um fjármálakerfið, Bloomberg hafði tekið viðtal við seðlabankastjóra Evrópu sem sagði að þarna væri mjög merkileg skýrsla á ferðinni. Reuters hefur ítrekað vitnað til þeirra sem hafa unnið að skýrslunni. Ég hef sagt áður í þessu máli að það þurfi að flýta því, ég hef aldrei hvarflað frá þeirri stefnu. Þess vegna gat ég ekki séð að tveir til þrír dagar gætu skipt höfuðmáli í jafnmikilvægu máli og við glímum við hérna.

Þegar skýrslan kom voru allir sammála um að hún er afar mikilvæg. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætlar að taka sér stuttan tíma til að fara yfir hana. Hún ætlar að breyta regluverki Evrópusambandsins, regluverki sem á að ná til allra seðlabanka, allra fjármálaeftirlita. Framkvæmdastjórnin ætlar að taka sér styttri tíma en áður hefur þekkst í annars mjög þunglamalegu kerfi.

Þegar ég fór yfir þessa skýrslu rak ég strax augun í kafla þar sem fjallað er um hvernig endurbæta megi evrópska kerfið um yfirstjórn á fjármálakerfum, sérstaklega í krísuástandi eins og við horfum upp á í dag.

Á blaðsíðu 104, í lið 171 er ein af tillögum þessarar nefndar sem hún telur afar brýnt að verði sett inn í löggjöf um seðlabanka víðs vegar í Evrópu. Ég les lauslega þýðingu á lið 170 þar sem segir:

Sá grundvallarlærdómur sem dreginn er af krísunni sem er talað um fyrr í skýrslunni um mjög svo aðkallandi þörf á því að endurbæta eftirlit fjármálakerfis í heild innan ESB vegna allra fjármálalegra athafna.

Svo kemur í 171:

Seðlabankar stjórna lykilhlutverki í heilbrigðu fjármálakerfi. Til að þeir, sérstaklega Seðlabanki Evrópu, geti sinnt hlutverki sínu við að vernda fjármálalegan stöðugleika ættu þeir að fá skýra og formlega heimild til að meta heildaráhættu í fjármálakerfinu og gefa út viðvaranir þegar þörf er á.

Það er akkúrat þessi breyting sem meiri hluti nefndarinnar hefur lagt til að komi inn í frumvarpið. Hún hljóðar því svona:

„Ef peningastefnunefnd [sem á einmitt að fjalla um fjármálastöðugleikann] metur það svo að alvarleg hættumerki séu til staðar sem ógna fjármálakerfinu skal hún opinberlega gefa út viðvaranir þegar tilefni er til.“

Eins og allir landsmenn vita hefur verið mikil umræða um það í fjölmiðlum að undanförnu hver átti að aðvara hvern, hverjir vissu af aðsteðjandi vanda og hverjir hlustuðu ekki.

Við erum ekki að tala um einhverjar einstakar ákvarðanir, við erum einfaldlega að tala um það að ef peningastefnunefndin metur það svo að hætta stafi að öllu fjármálakerfinu, ekki bara einstökum fjármálastofnunum eða einhverjum tilteknum atriðum, heldur öllu fjármálakerfinu, eigi að gefa út opinberar viðvaranir. Hún eigi ekki að hvísla því í eyru einhverra einstakra ráðamanna sem gera svo alls ekki neitt með þær tillögur.

Ég held að þetta sé afar mikilvægt ákvæði til að auka sjálfstæði Seðlabankans sem við verðum að halda óbreyttu og kannski auka. Þess vegna höfum við aukið hæfniskröfur, skipað hæfisnefnd til að tryggja að þeir sem stjórna bankanum séu þeir hæfustu sem völ er á. Við erum búin að setja belti og axlabönd á viðkomandi. Tillaga Sjálfstæðisflokksins er alveg þess virði að skoða hana. Auðvitað hefði hún átt að koma fram áður en við fórum í 2. umr. en við getum ekki gengið svo langt að við ætlum líka að setja fallhlíf á manninn í kjallaranum. Einhvers staðar verðum við að nema staðar og ég held að þarna sé sjálfstæði Seðlabankans nægilega tryggt í þessu efni.

Að lokum vil ég ítreka að þrátt fyrir taugaveiklun í sölum Alþingis, þrátt fyrir að miklu ryki hafi verið þyrlað upp í málinu hefur það fengið faglega meðferð í þinginu. Ég vil jafnframt að ítreka þakkir mínar til annarra nefndarmanna og starfsmanna þingsins sem fóru yfir þessar skýrslur, fyrir vönduð og fagleg vinnubrögð. Það er niðurstaðan í þessu máli, við þurfum svo að sjálfsögðu að endurskoða lögin í heild sinni. (Forseti hringir.) Það er verkefni næstu vikna og mánaða og þá skulum við hafa þessa svo mjög mikilvægu skýrslu til hliðsjónar.