136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:45]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Líkt og við 2. umr. frumvarpsins vil ég ítreka að framsögumenn nefndarálita hafa farið efnislega yfir þær breytingar sem á því hafa verið gerðar, annars vegar við 2. umr. og síðan við 3. umr. Nú liggja fyrir þinginu tvær breytingartillögur, önnur frá meiri hluta viðskiptanefndar og hin frá minni hluta viðskiptanefndar. Framsögumenn, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir og Höskuldur Þórhallsson, hafa gert grein fyrir breytingartillögu meiri hlutans og hv. þm. Birgir Ármannsson hefur grein fyrir breytingartillögu minni hluta viðskiptanefndar. Um þær verður væntanlega kosið síðar í dag.

Frumvarpið fjallar um tvo meginþætti, annars vegar þann þátt að breyta stjórnskipulagi bankans, fækka seðlabankastjórum úr þremur í einn, og hins vegar að hlutverki hinnar eiginlegu bankastjórnar sem starfar núna yrði breytt, inn kæmi peningastefnunefnd sem mundi fara yfir peningamál og taka ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum. Peningastefnunefndin yrði hluti af stjórntækjum bankans varðandi vaxtaákvarðanir hans, viðskipti við lánastofnanir, ákvörðun um bindiskyldu, viðskipti á gjaldeyrismarkaði sem hafa það að markmiði að hafa áhrif á gengi krónunnar. Um þetta var fjallað í 2. umr. og þegar breytingartillögur meiri hluta viðskiptanefndar komu til afgreiðslu hlutu þær ríkt brautargengi í þinginu og ég vil meina að frumvarpið hafi styrkst eftir 2. umr. og spurningin er hvort það muni ekki gera það líka með hliðsjón af þeirri breytingartillögu sem nú er fjallað um.

Ég fór yfir það á fundi þingsins sl. föstudag hvernig ég sæi fyrir mér að peningastefnunefndin sem skal setja sér starfsreglur gæti horft til bankastjórnarsamþykktar nr. 1111, eða „11–11“ eins og hún er kölluð, en í þeirri samþykkt eru nokkuð greinargóðar leiðarlínur um hvernig bankastjórnin á að vinna varðandi ákvarðanatöku. Með hliðsjón af því regluverki rakti ég mjög ítarlega ákvarðanir bankans varðandi stýrivaxtaákvarðanir á haustmánuðum allt frá því að bankinn tók ákvörðun í september og síðan í tvígang í októbermánuði. En líkt og menn muna þá var rökstudd ákvörðun um óbreytta stýrivexti í byrjun september, 15,5%, þeir voru síðan lækkaðir niður í 12% og loks hækkaðir upp í 18% þegar var búið að fullnusta samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég vék að því í ræðu minni sl. föstudag að mér hefði þótt þessi ákvörðun um 12% stýrivexti mátt vera betur rökstudd. Í ljósi þess vonast ég til að hin nýja peningastefnunefnd sem tekur til starfa, og ég held að sé ekki ágreiningur um í sjálfu sér, muni fljótlega birta starfsreglur sínar sem munu byggjast á umræddri ákvörðun bankastjórnar nr. 1111.

Ég vil einnig tiltaka það, virðulegi forseti, að eftir að afgreiðslan fór fram í þinginu síðastliðinn föstudag, jafnvíðtæk og hún var, hefur viðskiptanefndin haldið tvo eða þrjá fundi og eins og greint hefur verið frá fengum við á fund nefndarinnar erlenda aðila, m.a. til þess að fjalla um sjónarmið varðandi peningamál og fjármálamarkaðinn í heild sinni. Einnig var tekin sú ákvörðun að bíða eftir umræddri Larosiere-skýrslu en með henni fylgdi nokkuð ítarlegt minnisblað af hálfu utanríkisráðuneytis, viðskiptaráðuneytis og forsætisráðuneytis þar sem mjög greinargott yfirlit er yfir helstu atriði skýrslunnar.

Ég vil segja svona eftir á að þrátt fyrir að ég hafi ekki greitt þessari tillögu atkvæði í nefndinni sl. mánudag, þ.e. að bíða eftir skýrslunni, þá er gott að skýrslan er komin fram, líkt og kom fram í máli frummælenda, bæði hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur og Birgis Ármannssonar, því það er ekki víst að við hefðum haft tækifæri til þess á þinginu, í viðskiptanefndinni eða annars staðar að geta dregið þessa skýrslu inn í umræðuna og að nota hana síðan jafnvel til hliðsjónar varðandi þær breytingar sem hugsanlega verða gerðar á frumvarpinu. Því má segja, eins og oft var sagt í sveitinni, illu heilli, þá er mjög gott að þessi viðamikla skýrsla er komin til umræðu. Ég hvet áhugamenn um peningamál, um fjármálamarkaði og fjármálakerfi í heild sinni að kynna sér efni hennar því það eiga allir, hvort sem um er að ræða áhugamenn eða fagmenn um þessi mál, að skoða umrædda skýrslu og jafnvel að fá umrætt minnisblað sem lagt var fram í nefndinni varðandi yfirferð á skýrslunni.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða efnislega um breytingartillöguna þar sem hv. þingmenn í meiri hluta viðskiptanefndar hafa gert grein fyrir henni. Það má vel vera að tillagan sé umdeild, sérstaklega hvað varðar að peningastefnunefndinni skuli skylt að gefa út viðvaranir opinberlega, en ég vil þó benda á að tillagan styrktist í meðförum nefndarinnar í gærkvöldi, að mínu mati. Ég vil þakka þeim sem komu með ábendingar í nefndinni varðandi það atriði að við bættist, með hliðsjón af umræddri skýrslu orðin „þegar tilefni er til“ sem gefur peningastefnunefndinni dálítið frjálsar hendur um hvenær beri að gefa út hinar opinberu viðvaranir. Þá vísa ég aftur til þess sem ég sagði áðan varðandi þann áskilnað í lögunum, að peningastefnunefndin skuli setja sér starfsreglur og ég álít að með hliðsjón af þessari breytingartillögu þurfi peningastefnunefndin í starfsreglum sínum að fjalla sérstaklega um mál, eins og dregið er fram í tillögunni.

Ég vil líka ítreka varðandi þá sem munu setjast í peningastefnunefndina, miðað við lögin eins og þau líta út núna, að það verður að gæta þess að þeir séu hafnir yfir allan vafa í hinu faglega umhverfi sem þeir starfa í, bæði hvað varðar hæfni þeirra og hæfi til að sitja í peningastefnunefndinni. Þá er ég ekki að gagnrýna hina fyrri bankastjórn, virðulegi forseti, heldur einfaldlega að segja að við erum að horfa fram á nýtt skipulag og í hinu nýja skipulagi er búið að formfesta miklu frekar alla umgjörð varðandi peningastefnunefndina og hlutverk hennar.

Að lokum, virðulegur forseti, vil ég taka undir þá umræðu sem spannst áðan varðandi hlutverk þingsins, annars vegar eftirlitshlutverk þingsins og hins vegar framkvæmdarvaldsins og um leið sjálfstæði Seðlabanka. Ég tel að sjálfstæði Seðlabankans sé enn frekar tryggt með þeim breytingum sem koma fram í þessum lögum. Um leið hef ég verið talsmaður þess að þau mál sem á stundum eru ákvörðuð af framkvæmdarvaldinu eigi miklu frekar að koma til umræðu í þinginu þrátt fyrir að ég sé ekki sammála umræddri breytingartillögu minni hluta nefndarinnar eins og hún er borin fram á elleftu stundu. En öll sú umræða sem getur orðið í þinginu og fyrir utan þingið, virðulegi forseti, sem hefur það í för með sér að styrkja þingræðið og kannski um leið að veikja örlítið framkvæmdarvaldið — og þá er ég ekki að gera lítið úr þeim hæstv. ráðherrum sem fara með framkvæmdarvaldið, hið eiginlega framkvæmdarvald, eins og við túlkum það — er af hinu góða.

Ég álít að sú umræða og aðdragandi að umræðunni, þótt hann hafi verið langur, síðustu vikur og mánuði, varðandi Alþingi og varðandi þingræðið sé af hinu góða því við eigum að taka mun fleiri mál til efnislegrar umræðu á þinginu áður en þau eru ákvörðuð á öðrum stöðum. Það á að vera hlutverk þingsins og þingmanna að geta jafnan í góðu samstarfi þó að við séum ólíkir stjórnmálamenn og ólíkir stjórnmálaflokkar, náð fram fjölmörgum málum og leitt þau sameiginlega til lykta. Það eiga að vera hinir nýju tímar að við getum gert það með þeim hætti en ekki eins og oft hefur verið, kannski ekki endilega síðustu daga heldur jafnvel síðustu ár og áratugi, að við erum að kljást um aukaatriði en tökum í raun og veru ekki aðalatriðin til efnislegrar umfjöllunar og reynum að leiða þau til lykta. Ég vil, með fullri virðingu fyrir sjálfum mér, virðulegi forseti, meina að í hverju rúmi sé snillingur, hvort sem er innan þings eða utan, og við eigum að nota allan þann kraft sem býr í fólki og nýta þær leiðbeiningar sem koma fram því ef samræðan er tekin upp á efnislegan hátt þá náum við oftar en ekki fram bestu lausnunum.