136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:51]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum komin að 3. umr. um þetta mikilvæga mál, Seðlabanka Íslands, og ég held satt best að segja að flest sjónarmið hafi verið reifuð hérna í umræðunni, bæði í 1. og 2. og nú í 3. umr. Í 2. umr. lagði ég áherslu á að hv. viðskiptanefnd fjallaði sérstaklega um 3. gr. laga um Seðlabankann vegna þess að þar er kveðið á um markmið bankans, svokallað verðbólgumarkmið, sem hefur verið mjög umdeilanlegt og umdeilt þegar menn ræða um efnahagsmál á Íslandi og hefur verið það til nokkurra ára. Í þeirri umræðu rakti ég þær áhyggjur sem ég hef haft af þeirri nálgun sem hið stranga verðbólgumarkmið hefur í för með sér og til hvers það leiddi að þessi mikli vaxtamunur myndaðist á milli Íslands og landanna í kringum okkur við aðstæður þar sem fjármagn gat auðveldlega flotið á milli og menn nýtt sér þann vaxtamun.

Einhver helsta útflutningsgrein Íslands urðu þá vextir, gengi íslensku krónunnar varð of sterkt, innflutningur varð of mikill, neyslan varð of mikil, útflutningsgreinarnar máttu líða fyrir þetta en innflutningurinn græddi og ójafnvægi myndaðist í hagkerfinu. Af þessu hafði ég og margir aðrir, bæði þingmenn og hagfræðingar, sem um þetta fjölluðu á opinberum vettvangi, heilmiklar áhyggjur. Ég er þeirrar skoðunar að það hefði þurft, úr því að menn fóru í þetta frumvarp og í þessar breytingar á yfirstjórn bankans, að taka þetta til skoðunar og að menn hefðu þurft að gefa sér tíma til að gera það. Menn hefðu þurft að gefa sér tíma til að fara í þá umræðu. Það er til lítils að fara að breyta Seðlabankanum og yfirstjórn hans ef ekki er um leið svigrúm til að gera þær breytingar sem ég tel nauðsynlegar á framkvæmd peningamálastefnunnar, þ.e. að við hverfum frá þessu stranga verðbólgumarkmiði og aðlögum okkur nýjum veruleika. Það er ljóst í mínum huga að við munum búa við íslensku krónuna næstu missiri og jafnvel næstu árin og við þurfum að hafa peningamálastefnu sem getur tekist á við þann veruleika.

Því miður hefur það ekki verið gert og nokkur flýtir virðist hafa verið í þessu máli. Menn hafa ekki gefið sér tíma til að fara í þá hluti sem þó skipta mestu máli þegar verið er að fjalla um Seðlabankann. Það sem skiptir mestu máli í umræðu um Seðlabanka er hvernig bankinn starfar, hver eru viðmiðin. Það var það sem gerðist árið 2001 og það tók okkur heilmikinn tíma að komast að niðurstöðu. Mjög var vandað til verka, margir fengnir að, sérfræðingar sem höfðu mikið vit á þessum málum, og ég var einn af þeim sem var ánægður með niðurstöðuna. En það runnu á mig tvær grímur eftir því sem leið á tímann og ég sá að þessi stefna og framkvæmd hennar var ekki að mínu skapi og ég taldi að hún skapaði þetta ójafnvægi sem væri svo óæskilegt.

Ég hjó eftir því hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að hann talaði um það hvernig beita skyldi peningastjórnartækjunum og hafði á orði að horfa þyrfti til lykilhagstærða í hagkerfinu. Ég er sammála hv. þingmanni um þetta en þannig eru bara lögin, hv. þingmaður, og það var það sem við vorum greinilega ekki tilbúin til að ræða hér í þinginu, að bankinn á að horfa á eitt markmið fyrst og síðast og það er verðbólgumarkmiðið. Ég hefði talið að betur hefði farið ef við hefðum haft það þannig í umræddri lagagrein að bankanum bæri að horfa á verðbólgumarkmiðið í samhengi við helstu lykilstærðir í hagkerfinu. Þessu hefði ég viljað breyta í 3. gr. laganna, ég held að það hefði verið til bóta. En gott og vel, ég sé að það mun ekki gerast, við erum komin með þá stöðu sem hér er og við verðum að sjálfsögðu að gera hið besta úr þeirri stöðu.

Mér hefur fundist undarlegt að heyra þá umræðu að með því að ræða frumvarp til laga um Seðlabankanna væri verið að eyða tíma þingsins. Mér finnst sú umræða furðuleg og forkastanleg. Þetta er eitt af þeim grundvallarmálum sem þingið þarf að ræða mjög ítarlega, það þarf að fara mjög nákvæmlega í gegnum þetta. Ég held að hv. viðskiptanefnd hafi gert margt ágætt í því og breytt mjög vondu frumvarpi, sem kom upphaflega inn í þingið, til hins betra um mjög marga hluti. En ég verð að segja eins og er að það hefur valdið mér nokkrum vonbrigðum að sjá að bæði við 2. og 3. umr. hefur verið heldur fámennt hér í þingsalnum, fáir hafa látið sig þetta mál varða og það eru mikið til þeir sömu sem hafa rætt málið hér við 3. umr. og tóku til máls við 2. umr. Það skal þó tekið fram að ég var fjarverandi við 1. umr. og gat ekki tekið til máls þá en gerði það við 2. og nú við 3. umr. Ég hefði viljað að við hefðum gefið okkur allan þann tíma sem þurfti til þess að vanda þessa smíð, um þetta mikilvæga mál.

Hér liggur fyrir breytingartillaga frá meiri hluta viðskiptanefndar. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ef peningastefnunefnd metur það svo að alvarleg hættumerki séu til staðar sem ógna fjármálakerfinu skal hún opinberlega gefa út viðvaranir þegar tilefni er til.“

Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með að þetta skuli vera sett inn svona seint og vera allt að því órætt.

Menn kunna að hafa ýmsar skoðanir á þessu. Ég hef ákveðna skoðun á þessu og margir hv. þingmenn hafa hér lýst sinni skoðun, en ég hefði talið mjög mikilvægt að við hefðum kallað til færustu sérfræðinga á þessu sviði, gefið okkur í það minnsta einn dag, þó ekki væri nema það, til þess að kalla til sérfræðinga til að meta nákvæmlega orðalagið, hvaða áhrif þetta hefði, hvernig þetta yrði í framkvæmd o.s.frv. Seðlabankinn er undir og starfsemi hans, ein mikilvægasta stofnun í hagkerfi okkar og í þjóðlífinu öllu. Mér finnst það hreint út sagt ekki boðlegt að við setjum svona setningu inn í lög án þess að við höfum farið í gegnum einhverja alvöruumræðu um málið.

Ég ætla ekki að segja að ég sé fullkomlega bær um að meta afleiðingarnar af þessu og ég er ekkert viss um að þeir sem hér sitja í salnum séu það eitthvað frekar en ég. Ég játa að ég hef hvorki haft tíma né þekkingu til þess að meta þetta nákvæmlega, hef sennilega ekki þá þekkingu sem til þarf. Ég hefði viljað sjá viðbrögð sérfræðinga á sviði peningamálastjórnunar og þeirra sem eru sérfræðingar í Seðlabanka Íslands og lagaumhverfi hans og fá skoðun þeirra á þessu. Ég held að þetta sé mjög til hins verra og ég hef miklar áhyggjur af því að þetta ákvæði skuli ekki hafa verið rætt betur og kannað.

Jón Daníelsson hagfræðingur, sem er sérfræðingur á þessu sviði, hefur áhyggjur af þessu. Jón er prófessor í fjármálum í London School of Economics. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að vera nemandi Jóns við Háskóla Íslands og veit að Jón er feikilega vel að sér um þessa hluti. Þegar maður eins og Jón Daníelsson lýsir yfir efasemdum sínum og áhyggjum af þessu held ég að það sé skynsamlegt — og við erum að ræða um jafnmikilvægan hlut og Seðlabanka Íslands, hlutverk hans og hagstjórnina — að hlusta. Hvort sem það lýtur að hagstjórninni sjálfri, beitingu stýritækja bankans eða fjármálastöðugleikanum eigum við að hlusta á menn eins og Jón þegar þeir tjá sig með þessum hætti.

Það hefði verið skynsamlegt hjá viðskiptanefnd, úr því að þessi tillaga kom fram, að menn hefðu sagt: Við ætlum að gefa okkur tíma til að kalla eftir áliti sérfræðinga á þessu ákvæði, kanna hvað þeir hafa að segja, vinna úr því. Það kann vel að vera að það hefði orðið niðurstaða þeirra að þetta væri hið ágætasta ákvæði og þá hefðum við bara tekið því hér inni í þingsal. Það kann líka að vera að þeir hefðu haft sömu skoðun og prófessor Jón Daníelsson sem hefur sínar efasemdir, en við höfum ekki nokkurn tíma til þess að fjalla um þetta. Þetta mál verður tekið til atkvæðagreiðslu, þetta er tillaga frá meiri hluta viðskiptanefndar og flest bendir til þess að hún verði samþykkt óbreytt.

Ég lýsi efasemdum mínum og áhyggjum af þessu og vil enn og aftur ítreka að ég hefði talið að öll umræðan um Seðlabankann hefði þurft að vera ítarlegri. Við höfum farið nokkuð hratt í gengum frumvarpið. Ég veit að hér inni eru margir hv. þingmenn sem hafa á þingmennskuferli sínum haft áhyggjur af því hvernig þingið vinnur lagafrumvörp, þ.e. að stundum sé býsna hratt farið. Í þessu frumvarpi, sem er mjög mikilvægt, hefðu menn þurft að vanda sig eilítið meira.

Í sjálfu sér hef ég ekki mikið meira um frumvarpið að segja umfram það sem ég hef þegar sagt við 2. umr. og nú þessa. Ég ber enn þá von í brjósti að meiri hluti nefndarinnar skoði þessa tillögu sína og fari ekki fram með þeim hætti sem mér sýnist allt stefna í. Ég ætla ekki að segja að ég ætli að halda niðri í mér andanum eða vænta mikils í þeim efnum en í það minnsta hafa þessi varnaðarorð mín komið fram og ég vona að þau leiði til einhvers góðs.