136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[17:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Við sjálfstæðismenn höfum frá upphafi lýst þeirri skoðun okkar að við værum tilbúin að ræða breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands og þeirri löggjöf sem snertir það svið. Við höfum við meðferð þessa máls á þingi reynt að leggja gott til málanna, við höfum tekið þátt í því starfi sem hefur átt sér stað, við studdum breytingartillögur við 2. umr. sem voru vissulega til bóta vegna þess að frumvarpið var í upphafi mjög vanbúið og var í rauninni lagt fram algjörlega ófullkomið og óklárað fyrir þingið. Breytingartillögurnar voru til bóta, við studdum þær en hins vegar vek ég athygli á því að þær breytingartillögur sem við fluttum við 2. umr. voru felldar, sama er með þá breytingartillögu sem við fluttum áðan og síðast en ekki síst hefur hér verið samþykkt breytingartillaga sem að okkar mati getur verið stórskaðleg, er einsdæmi í löggjöf um seðlabanka í heiminum svo ég viti til, að peningastefnunefnd sé falið hlutverk af þessu tagi. Við sjálfstæðismenn getum því ekki stutt frumvarpið og greiðum atkvæði gegn því.