136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

kostnaður við loftrýmiseftirlit.

[15:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr mig um mál sem heyra undir aðra ráðherra, annaðhvort utanríkisráðherra eða forsætisráðherra. Ég veit ekki annað en að launakjör seðlabankastjóra sem nú starfa verði þau sömu og forvera þeirra. Ég veit ekki til að ráðgerðar hafi verið neinar breytingar á því, enda er það bankaráð Seðlabankans (JónG: Það er búið að ráða hann, liggur þetta ekki fyrir?) sem sér um þá hluti.

Varðandi kostnað af þessari heimsókn Dana sem ég tel vel að merkja að hefði alveg mátt missa sig, ég veit ekki um neitt sem ógnar okkur sérstaklega á næstu vikum og að við þurfum Dani til að passa upp á það, er mér tjáð að sá kostnaður verði brot af því sem menn höfðu áður gert ráð fyrir að slíkar heimsóknir mundu kosta, kannski tugur milljóna króna eða svo í staðinn fyrir 100 eða þaðan af meira. Ég held að tvímælalaust sé verið að gera rétta hluti í þessum efnum, að draga úr þessu og skoða hvernig ná megi niður kostnaði. Vonandi vinnst þessari ríkisstjórn tími til að koma botni í þetta mál eins og mörg önnur þörf sem hún er að sýsla með þessa dagana.