136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

staða landbúnaðarins.

[15:57]
Horfa

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Það er rétt að þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir að taka hér upp málefni landbúnaðarins. Það er full ástæða til að þau vandamál séu rædd alveg sérstaklega og farið yfir þau.

Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað er eðlilegt að við veltum því fyrir okkur hvernig best væri að mæta þeim vanda. Það liggur ljóst fyrir að auka þarf tekjur bænda og lækka útgjöld þeirra. Spurningin er hvernig við eigum að gera það miðað við þær aðstæður sem nú eru. Ég er ekki viss um að það sé rétta leiðin að hlaupa í að hækka verð á öllum afurðum. Eins og fram kom í máli hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur dregið úr sölu ákveðinna afurða og ef gripið yrði til þess að hækka vörurnar er hugsanlega verið að taka áhættuna af því að salan minnki áfram.

Það er eðlilegt að menn horfi til Bjargráðasjóðs vegna þess vanda sem augljóslega stefnir í í landbúnaði varðandi hækkun t.d. á áburðarverði og aðföngum. En rétt er að geta þess í þessari umræðu, vegna þess að hv. þm. Grétar Mar Jónsson nefndi að eðlilegt væri að horfa til þess að reisa áburðarverksmiðju, að mér er kunnugt um að hörðum höndum er unnið að slíkum hugmyndum í iðnaðarráðuneytinu. Vonandi sjáum við fyrr en síðar innlenda áburðarverksmiðju. Það er augljóst mál í þeirri þróun sem átt hefur sér stað að það er afar mikilvægt til að draga úr útgjöldum bænda að við getum framleitt okkar eigin áburð — slík er hækkun á aðföngum og við þurfum að draga úr notkun gjaldeyris.

Herra forseti. Það er með landbúnaðinn eins og annan vanda atvinnuveganna í dag, það er engin einföld lausn. Þess vegna er mikilvægt að verið sé að skoða málin frá öllum hliðum og reyna að finna heildstæðar lausnir, patentlausnir munu engu skila. Það er hins vegar afar athyglisvert, þegar Framsóknarflokkurinn ræðir hér um Evrópusambandið (Forseti hringir.) og afleiðingar af hugsanlegum viðræðum við það, að maður áttar sig (Forseti hringir.) eiginlega ekkert á því á hvaða leið sá ágæti flokkur er í þeim efnum.