136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

innköllun íslenskra aflaheimilda.

98. mál
[17:26]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fagna ræðu hv. þm. Péturs Blöndals þar sem hann telur að þetta sé góð þingsályktunartillaga hvað það varðar að þetta geti orðið til þess að stokka upp kerfið í íslenskum sjávarútvegi, fiskveiðistjórnarkerfið, og ég get ekki annað en fagnað því hvernig hann tók á því, hv. þm. Pétur Blöndal.

Ríki og þjóð, já, það má vel vera að það sé í sumum skilningi ekki það sama en þjóðin á að eiga fiskinn í sjónum, hún á að vera þjóðareign, sameiginleg þjóðareign. Hvað er ríkið annað en þjóðin? Við getum farið út í þá sálma endalaust.

Ef úthlutun á kvóta yrði eins og hv. þingmaður lagði til, þ.e. að hvert mannsbarn fengi kvóta úthlutaðan, þá væri mjög erfitt fyrir íslenska útgerðarmenn að vinna við þannig kerfi þar sem hvert mannsbarn í landinu ætti kannski eitt tonn af veiðiheimild sem skiptist upp í 10, 20 kvótabundnar tegundir og þetta væri nánast í grömmum frekar en kílóum. Það gengur að mínu mati ekki upp enda væri það fljótt að safnast á fárra manna hendur líkt og í því kerfi sem við búum við núna og er ekki til lausnar.

Varðandi útgerð sem ekki skuldar er gert ráð fyrir því í þessari þingsályktunartillögu að þeir sem ekki skulda veiðiheimildir fái endurgreitt út úr auðlindasjóði en það er kannski (Forseti hringir.) lengra mál og ég mun nota tækifærið á síðari stigum til að útskýra það.