136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég tala eingöngu fyrir sjálfa mig og hef sjálf velt fyrir mér hvort og að hvaða leyti ég ber ábyrgð á því sem gerðist hér í haust. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, eins og hefur komið fram, að sem þingmaður á Alþingi hefði ég getað gert betur og ég tel reyndar að við hefðum öll getað gert betur.

Við heyrðum gagnrýni og viðvaranir frá fræðimönnum, bankamönnum og ýmsum aðilum hér heima og utan úr heimi sem töldu að ekki væri allt með felldu. Ég var ein þeirra sem afgreiddu þær viðvaranir sem fjarstæðukenndar úrtölur og tók jafnvel þátt í því að gera þessu fólki upp annarleg viðhorf. Okkur er reyndar vorkunn því að á sama tíma birtust andmæli frá erlendum matsfyrirtækjum, bönkunum, eftirlitsstofnunum, erlendum og innlendum fræðimönnum og síðast en ekki síst frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem örfáum dögum fyrir hrunið gaf okkur Íslendingum þá einkunn að framtíðarhorfur okkar væru öfundsverðar. Við fengum ætíð staðfestingu og fullvissu um að þrátt fyrir allt væri allt í lagi. Við vorum sjálfumglöð og sjálfsörugg og veittum aðvörunarmerkjum ekki athygli sem skyldi.

Ég á minn þátt í þessu andvaraleysi sem við höfum gert okkur sek um á undanförnum mánuðum og missirum og jafnvel árum gagnvart þróun efnahagsmála í landinu og því hruni sem var í uppsiglingu.

Fyrir sjálfa mig þykir mér það miður og hef beðist afsökunar á því. Ég tel reyndar að þingmenn séu þar ekki einir á báti því það á einnig við um aðra, embættismenn, fjölmiðlafólk, hagfræðinga og aðra efnahagssérfræðinga og ótal marga fleiri. Sjálfsagt má segja að hvert og eitt okkar hafi verið í mismunandi aðstöðu til að átta okkur á stöðu mála, bæði vegna þekkingar okkar og verkefna á vegum Alþingis. Þar eru Samfylkingin og þingmenn hennar ekki undanskilin. Ég hef ekki orðið vör við að Samfylkingin eða þingmenn hennar hafi viðurkennt að þau hafi átt hlut að máli. Þvert á móti hefur Samfylkingin ítrekað vísað frá sér ábyrgð og bent á aðra, Sjálfstæðisflokkinn, Seðlabankann, eftirlitsstofnanir og alla aðra en sjálfa sig. Samt var Samfylkingin í ríkisstjórn þegar viðvörunarraddirnar fóru að heyrast og ráðherra Samfylkingarinnar var bankamálaráðherra og (Forseti hringir.) bar ábyrgð á eftirlitsstörfunum.

Því spyr ég hv. þingmann á móti: Hvar liggur ábyrgð Samfylkingarinnar í þessum málum?