136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

efnahagshrunið og pólitísk ábyrgð.

[13:53]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður og sérstaklega hv. þm. Ástu Möller fyrir góð svör við erindi mínu til hennar, sem var aðallega að votta henni virðingu mína. Ég tel mikilvægt að við missum þá umræðu sem við stöndum nú frammi fyrir, þingmenn á þessu kjörtímabili, og þeir sem hér flækjast inn af ýmsum tilviljunum, ekki út í hefðbundið flokkakarp eins og mér fannst bera á, einkum hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni.

Það er rétt, Samfylkingin ber ábyrgð, er ekki undanskilin ábyrgð. Það er líka rétt að hún hefur stjórnað í 18 mánuði en ekki í 18 ár og það er enn réttara að helsta sök hennar er kannski sú að hafa látið Sjálfstæðisflokknum eftir hagstjórnina í þessa 18 mánuði, að hafa ekki gripið inn í sjálf og efnt kosningaloforð sem hún gaf fyrir kosningar í sérstökum bæklingi sem vitringar okkar ritstýrðu.

Það hefur líka verið rakið að rætur þess sem gerðist liggja aftar. Þær liggja í upptöku kvótakerfisins, hv. þm. Grétari Mar Jónssyni til gleði, í ofsafengnum stórvirkjunaráformum og framkvæmdum og í einkavæðingu bankanna sem var gerð eins og kálfum sé hleypt út að vori. Við ættum þó kannski einkum að vera að ræða hinar hugmyndafræðilegu ástæður þess sem varð, hvernig samfélagið var allt í einu orðið samfélag einkahagsmuna, samfélag græðgi, samfélag sérhyggju, í stað þeirrar íslensku hefðar og í stað þeirrar jafnaðarhugsunar sem mjög hefur einkennt íslensk stjórnmál á síðustu öld, a.m.k. að miklu leyti, að berjast gegnum málin með samtökum og samhjálp, (Forseti hringir.) sýna þrautseigju og nægjusemi eins og í gamla bændasamfélaginu (Forseti hringir.) og sjómannasamfélaginu.