136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[17:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef breytingartillaga mín yrði samþykkt kæmi virkilega í ljós hvers virði réttindi LSR A-deildar eru umfram réttindi t.d. Lífeyrissjóðs verslunarmanna — ef einhver þingmaður veldi þann sjóð kæmi það beint í ljós. Það er einmitt slíkt gagnsæi sem almenningur krefst í dag þannig að ég skora á hv. þingmann að samþykkja breytingartillögu mína þannig að þingmenn geti valið sér sjóði úti í þjóðfélaginu sem kjósendur þeirra greiða til og þá kemur í ljós hvers virði réttindin eru og þá kemur gagnsæið. Þá kæmu líka í ljós forréttindi, eða hvað menn vilja kalla það, opinberra starfsmanna sem þeir hafa að sjálfsögðu samið um og fengið í gegnum kjarasamninga og ég er ekki að tala um að afnema þau. Ég vil bara sýna hvers virði þau eru. Það er það eina.

Það að málefni forseta Íslands hafi ekki verið rædd í nefndinni — þ.e. komandi forseta, eftirmanns þess sem nú situr — þá er það vegna þess að ansi mikill hraði var á málum í nefndinni. Við hv. þingmenn í Sjálfstæðisflokknum reyndum hvað við gátum til að málið fengi hraða afgreiðslu því mörg mál liggja fyrir og stjórnin hefur stuttan tíma. Ég sagði í morgun að ekki væri sanngjarnt að ætlast til þess að stjórnin komi með öll mál í hvelli en við munum að sjálfsögðu styðja öll þau mál sem horfa til betri vegar og alveg sérstaklega þegar ríkisstjórnin fer að koma með mál — sem vonandi verður fljótlega og kannski er eitthvað komið nú þegar — sem varða fjölskyldurnar í landinu og alveg sérstaklega fyrirtækin og þar horfum við mest á stöðu bankanna, því ef bankarnir eru veikir eru fyrirtækin veik og þá missir fólk vinnuna.