136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[17:24]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi kjararáð er mikilvægt þegar gerðar eru jafnveigamiklar breytingar á heildarkjörum þeirra sem málið snertir, eins og hér er rætt um, að skýr lögskýringargögn fylgi afgreiðslu málsins frá þinginu. Lítur þingið þannig á að hér sé verið að hrófla við heildarkjörum þeirra sem málið snertir? Ég er þeirrar skoðunar að svo sé, eins og kom fram hjá hv. þingmanni þegar hann fjallaði um opinbera starfsmenn, að engar breytingar væri hægt að gera á lífeyrisréttindum þeirra, t.d. að færa þau til samræmis við það sem gerist á almennum markaði án þess að víðtækt samráð væri haft við þá í því ferli og ekki væri hægt að komast að annarri niðurstöðu en slík breyting fæli í sér kjaraskerðingu sem taka þyrfti tillit til.

Hér eru menn almennt svo spéhræddir vegna þess að þeir fjalla um sín eigin kjör að þeir þora ekki að blanda sér í þá umræðu hvort taka þurfi tillit til þess í kjölfarið að hér eru réttindi færð niður, hvort þeir horfi þá þannig á málið að kjararáð muni bregðast við í framhaldinu. Öll þessi umræða um kjör þingmanna, ráðherra, dómara og forsetans fer fram undir því yfirskini að menn þora ekki að segja alla meiningu sína. Það er niðurstaða mín eftir að hafa hlýtt á umræðuna frá árinu 2003 og svo aftur nú. Mér finnst að menn eigi að taka af skarið í þessu. Við skulum senda þessi mál til framtíðar til kjararáðs til ákvörðunar. Hættum að fjalla um eigin kjör og kjör ráðherranna í þinginu. Langbest er að þeir sem fjalla um þau mál að öðru leyti fjalli líka um lífeyrisréttindi.