136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

stjórnarskrárbreytingar og stjórnlagaþing.

295. mál
[14:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við skulum hafa það á hreinu að við sjálfstæðismenn viljum breytingar á stjórnarskránni. Það er alveg ljóst. Við viljum hins vegar ekki þau nýju vinnubrögð sem birtast hér hvað eftir annað. Trekk í trekk er nýja stjórnin, vinstri stjórnin, að breyta um vinnubrögð sem hafa verið við lýði áratugum saman. Það er ekki þannig að við höfum ekki náð fram breytingum á stjórnarskránni eins og Danir. Þeir breyttu stjórnarskrá sinni síðast 1953. Við breyttum henni 1991, 1995 og 1999 og alltaf í þverpólitísku samkomulagi flokkanna. Af hverju er það ekki hægt núna?

Vissulega getur verið að síðasta ríkisstjórn hafi ekki sett í gang aftur stjórnarskrármálið en ætlunin var að fara í þau og nota síðari hluta kjörtímabilsins í það verk og það veit hæstv. forsætisráðherra. Hvað réttlætir það þá að koma hér á síðustu metrunum rétt fyrir kosningar, korteri fyrir kosningar og þröngva inn breytingum á merkilegasta plaggi löggjafans sem er stjórnarskráin? Það á að keyra breytingar korteri fyrir kosningar, (Forseti hringir.) þvert ofan í hefðbundin vinnubrögð, ofan í fólkið í landinu. Við viljum breytingar á stjórnarskránni en gerum það saman og gerum það í sátt. Við eigum að bera virðingu fyrir stjórnarskránni.