136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:22]
Horfa

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er kannski á svipuðum nótum og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson var áðan. Ég er þeirrar skoðunar að hér sé ekki um neina grundvallarbreytingu að ræða og ekki neitt í takt við þá kröfu sem ÖSE gerir um þennan fyrirvara því að þetta er ekki það mikil breyting. Staðreyndin er sú að í dag er heimilt að breyta listum, kjósendum er heimilt að gera breytingar á listum, og reyndar þannig að ef allir kjósendur tiltekins flokks í tilteknu kjördæmi eru sammála um að gera tilteknar breytingar þá geta þeir snúið listanum á haus. Það er einfaldlega þannig ef þeir taka sig saman um það.

Með þessum breytingum er hins vegar verið að auka vægi kjósenda í þeim skilningi að ekki þarf jafnmikið til til að breyta listanum. Það er kannski þetta, virðulegi forseti, sem ég vil koma á framfæri, að flokkarnir geta eftir sem áður ákveðið að hafa sinn lista óraðaðan eða boðið upp á þennan valkost. Þetta er einungis möguleiki á að færa aukið vald til kjósenda. Og þegar af þeirri ástæðu, af því að hv. þingmaður talaði um að það væri álitaefni hvort þyrfti aukinn meiri hluta í þinginu eða ekki, þá er staðreyndin sú að 82. gr. heimilar breytingar og jafnvel miklar breytingar. Hér er því ekki um að ræða neina eðlisbreytingu á lögunum. Lögin kveða einnig skýrt á um það hvenær þarf samþykki tveggja þriðju hluta í þinginu. Það eru, ef ég man rétt, ákvæði 106. og 107. gr. og ekki önnur. Hér er verið að breyta ákvæðum 82. gr., samanber 110. gr. Því tel ég alveg fráleita hugmynd, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að hér þurfi samþykki tveggja þriðju hluta þingmanna.