136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[11:21]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að ég hefði svarað þessari spurningu hv. þingmanns áðan. Ég sagði að ég teldi eðlilegt að kjararáð úrskurðaði um öll kjör þeirra hópa sem undir lögin heyra, í okkar tilviki þá þingfararkaup, lífeyrisréttindi og önnur kjör þannig að vildarpunktar eða dagpeningar eða annað slíkt sem hv. þingmaður nefndi fellur þar undir. Ég lít svo á að ákvarðanir um þetta eigi að fella allar undir kjararáð.

Óskað var eftir afstöðu minni til þessa máls. Hún mun auðvitað koma fram í atkvæðagreiðslunni. Ég geri ekki ráð fyrir að málinu verði frestað þrátt fyrir þessa ábendingu mína um að ákvarðanir um launakjör alþingismanna og ráðherra verði færðar undir kjararáð, en það gæti verið verðugt verkefni þeirra stjórnvalda sem taka við eftir kosningar eða þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að marka stefnu í þeim málum.

Ég geri ráð fyrir að frumvarpið, eins og það er, verði samþykkt. Við erum við 3. umr. um málið og ég get ekki annað en talað fyrir sjálfan mig en ég hef lýst því yfir að ég sé reiðubúinn til að samþykkja meginatriðin sem koma fram í frumvarpinu þrátt fyrir að ég hafi t.d. stutt breytingartillögur hv. þm. Péturs Blöndals. Þetta er ekki fullkomið frumvarp en ég get vel fellt mig við ýmislegt sem þar kemur fram.