136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[11:51]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langaði til að koma hér upp og taka sérstaklega undir þá breytingartillögu sem efnahags- og skattanefnd gerði við þetta frumvarp. Ég held nefnilega að sú staða sem er í byggingariðnaðinum núna, sérstaklega hjá hönnuðum, sé svo alvarleg að við því verði að bregðast. Það er mjög gott að nefndin skuli hafa litið sérstaklega til þessa, gert þarna bragarbót á og létt þannig undir.

Þegar byggingariðnaðurinn er í svo miklum vanda eins og hann stendur frammi fyrir núna og svo mikið kul er orðið hjá hönnuðum, arkitektum og verkfræðingum, getur maður ekki annað en haft verulegar áhyggjur af framtíð þessara greina næstu missirin og hvernig við getum stutt þær til þess að þær geti haldið áfram að starfa hér. Við skulum ekki kveða neitt sterkara að orði um það.

En allur vandi á sviði byggingariðnaðarins byrjar yfirleitt þarna, hjá arkitektunum, þegar verkefnin hverfa og síðan heldur hann áfram inn í framkvæmdirnar sjálfar. Það dregur alveg úr þeim.

Mig langar til að forvitnast um það hjá hv. þingmanni, vegna þess að ég veit að þetta var til umræðu í nefndinni, hvort komið hafi fram hjá þeim aðilum sem fyrir nefndina komu að hægt væri að huga fleiri þáttum til þess að aðstoða þessar greinar, arkitekta og verkfræðinga, við þær aðstæður sem nú eru. Hvort hann sjái fyrir sér að frekari breytingar geti orðið á þessu sviði núna á næstunni.