136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

370. mál
[13:59]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér þingsályktunartillögu um hagsmuni Íslands í loftslagsmálum. Þessa tillögu flytja 36 þingmenn, þ.e. allir þingmenn Alþingis nema þingmenn ríkisstjórnarflokkanna, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Mér býður í grun að nokkrir samfylkingarmenn hefðu gjarnan viljað vera á þessari tillögu af því að Samfylkingin er klofin í afstöðu sinni til þessa máls eins og margoft hefur komið fram í umræðum hér á Alþingi.

Tillagan gengur út á það, virðulegur forseti, að Alþingi telur að ríkisstjórnin eigi að gæta ýtrustu hagsmuna Íslands í þeim samningaviðræðum sem nú fara fram um loftslagsbreytingar, og stefnt er að því að þeim umræðum ljúki í Kaupmannahöfn í desember á þessu ári. Í tillögugreininni er sérstaklega undirstrikað að þeir þingmenn sem að þessu máli standa telja að viðhalda eigi og ná fram svokölluðu íslensku ákvæði sem er í Kyoto-bókuninni. Í greinargerðinni kemur fram lýsing á því ákvæði og röksemdafærslan fyrir því. Á sínum tíma, þegar Kyoto-ferlið hófst, færðum við Íslendingar mjög sterk rök fyrir því að ná fram svokölluðu íslensku ákvæði.

Við höfðum áður en svokallað þröskuldsár fór í hönd, 1990, t.d. hreinsað meira og minna upp í húshitun og nýttum endurnýjanlega orkugjafa í miklu ríkari mæli en önnur ríki, við erum reyndar heimsmeistarar í því. Segja má að við höfum verið búin að hreinsa upp hjá okkur löngu áður en önnur ríki tóku til við það og mörg ríki eru ekki einu sinni byrjuð. Við vorum, ef þannig má að orði komast, orðin hreint ríki áður en Kyoto-samningaviðræðurnar hófust.

Það kemur líka hér fram að eitt verkefni á Íslandi, tökum sem dæmi ein iðnaðarverksmiðja, losar hlutfallslega miklu meira hér á landi en í öðrum ríkjum af því við vorum svo hrein frá byrjun, losar um tugi prósenta. Þetta sáu allir sem komu að þessum samningaviðræðum. Sú er hér stendur átti þátt í þeim og náði, ásamt fleiri ráðherrum og embættismönnum íslenska stjórnkerfisins, íslenska ákvæðinu fram og er mjög stolt af því.

Þau rök sem við héldum fram á þeim tíma eru öll í gildi í dag. Það er mjög mikilvægt, af því hér er um geysilega mikið atvinnumál að ræða — þetta gengur út á það hvernig við ætlum að standa að iðnaði okkar almennt í landinu — að ríkisstjórnin ákveði að hverfa af þeirri braut sem hún hefur verið á síðustu tvö árin, þ.e. hún verður að hverfa af þeirri braut að halda íslenska ákvæðinu ekki til haga.

Það er ljóst að síðasta ríkisstjórn var klofin. Sjálfstæðisflokkurinn vildi halda íslenska ákvæðinu til haga og það kom opinberlega fram í ræðu hv. þm. Geirs H. Haarde. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir vildi það hins vegar ekki og var þá umhverfisráðherra. Hæstv. iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, sat á girðingunni og sagði: Við skulum bara huga að íslenska ákvæðinu síðar þegar menn fara að tala um hvert einstakt ríki. (Gripið fram í.)

Það er mjög mikilvægt að við tökum á þessu máli. Ég viðurkenni að mjög seint er af stað farið. Fundurinn í Kaupmannahöfn er í desember og það kostar mikla vinnu að ná íslenska ákvæðinu í gegn. Það þarf líka að huga að nýjum verkefnum og fá viðbótarlosunarheimild vegna þeirra.

Þetta ákvæði er vistvænt fyrir lofthjúpinn og það er mjög skrýtið að Vinstri grænir og hluti Samfylkingarinnar skuli hafa verið svo mikið á móti ákvæðinu. Nú eru öll ríki að berjast við að koma því þannig fyrir að lofthjúpurinn verði hreinni og þetta ákvæði er einmitt þess eðlis. Það er sex til átta sinnum betra fyrir lofthjúpinn að við nýtum okkar endurnýjanlegu orku í iðnaði heldur en að önnur ríki, sem nota kol og olíu, framleiði sama magn af vöru.

Við erum mjög sein, virðulegur forseti. Hins vegar má vel vera að ekki náist niðurstaða í Kaupmannahöfn. Það er meira að segja frekar ólíklegt að hún náist. Ef svo verður ekki aukast líkurnar á því að við getum haldið hagsmunum okkar til haga. Ég vona að við náum þessu máli hér í gegn svo að ríkisstjórnin, og svo næsta ríkisstjórn, geti sem fyrst hafist handa við að halda þessu ákvæði og fá það útfært á þann hátt sem okkur er hagkvæmt.