136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skerðing bóta almannatrygginga vegna lífeyrisgreiðslna.

[15:38]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hvað líði því að skoða samhengi skerðingar að því er varðar greiðslur úr almennum lífeyrissjóðum.

Á undanförnum árum höfum við sett frítekjumark að því er varðar tekjur, atvinnutekjur, fjármagnstekjur, séreignarsparnað, o.s.frv. Út af stendur hins vegar að ef fólk fær 10 þúsund kr. greiðslu úr almennum lífeyrissjóði skerðir það enn þá grunnlífeyrinn frá Tryggingastofnun og er í raun og veru eina greiðslan sem eldri borgarar og öryrkjar fá. Þó að öryrkjar eigi margir hverjir því miður lítinn rétt í lífeyrissjóðum er þetta samt eina greiðslan sem skerðir nú beint án þess að hafa frítekjumark.

Ég hefði talið að sú stefnumótun sem lagt var upp með og hefur verið unnið eftir kannski síðustu þrjú, fjögur árin, að búa til allt að 100 þús. kr. frítekjumark eins og varðandi atvinnutekjur og fjármagnstekjur, sé eitthvað sem við ættum að líta til varðandi lífeyristekjurnar úr almennum lífeyrissjóðum og setja það í samræmi. Það er mikil ástæða til þess einmitt eins og nú árar í þjóðfélaginu þegar fólk lendir í því að missa vinnuna og er komið á þann aldur að það getur nýtt sér lífeyrisrétt sinn en fær þá skerðingar út á nánast hverja krónu sem það fær greitt.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvað hún hyggst gera að því er varðar frítekjumark.