136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

álver á Bakka.

[15:49]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hló aðeins þegar hæstv. iðnaðarráðherra minntist á Vaðlaheiðargöng. Þetta var eina kosningaloforð Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi fyrir síðustu alþingiskosningar. (Samgrh.: Nei, nei.) Þau áttu að koma strax og þau áttu að vera gjaldfrjáls. En þegar hæstv. samgönguráðherra, (Samgrh.: Miklu fleiri.) sem gjammar núna fram í, fékk lykilinn að samgönguráðuneytinu sagði hann af því tilefni að þau mundu frestast og þau yrðu síður en svo gjaldfrjáls.

Einnig var minnst á það að Samfylkingin vildi beita sér fyrir uppbyggingu álvers á Bakka. Því miður er Samfylkingin klofin í þessu máli, en það er alveg ljóst eins og sást varðandi atvinnuuppbygginguna á Austurlandi — og þar er staðan betri — og núna varðandi álverið í Helguvík verða þessi verkefni ekki að veruleika nema stjórnvöld komi þar að. Þess vegna ítreka ég það að hæstv. iðnaðarráðherra verður að beita sér (Forseti hringir.) í því máli eins og hann er að gera núna varðandi Helguvík.