136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[23:07]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er að verða dálítið skondin umræða sem hér fer fram. Við viljum atvinnumál, segir hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Við viljum það öll, en við viljum ekki að frumvarpið um séreignarsparnað sé notað til þess að tefja alvöruumræðu. Atvinnumál eru stóra málið á Alþingi núna til að koma atvinnulífinu af stað og til að bjarga mörgum heimilum og þar af leiðandi þurfum við að ræða þau. Þá eigum við ekki að tefja umræðu með máli sem er kannski hænufet í rétta átt, þ.e. um séreignarsparnaðinn, heldur snúa okkur að alvörumálunum. Það er að mínu mati það sem við þurfum að gera og eigum að gera. Við eigum að ræða sjávarútvegsmál og breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og öðru gagngert til þess að afla meiri tekna inn í þjóðfélagið og minnka það atvinnuleysi sem er til staðar núna. Það getum við gert með því að stokka upp í sjávarútvegi en varðhundar kvótakerfisins númer eitt, tvö og þrjú, sjálfstæðismenn sem hafa ásamt Framsókn varið ranglátt fiskveiðistjórnarkerfi í 25 ár, eiga auðvitað að sjá sóma sinn í því að snúa sér að alvörumálum, aðalatriðum en ekki aukaatriðum, og byrja á því að breyta því til betri vegar að virða mannréttindanefndarálit Sameinuðu þjóðanna og rétt sjómanna hringinn í kringum landið til að eiga jafnan aðgang að sameiginlegum auðlindum og ríkið á auðvitað að hafa af því tekjur.