136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:51]
Horfa

Geir H. Haarde (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má vel vera að valdmörk löggjafarvalds og framkvæmdarvalds séu óskýr, það má vel vera að það sé eitt og annað til í þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á stjórnarskrána. Öll þekkjum við að margt í henni er undarlega orðað, gamaldags o.s.frv. En hefur það ekki verið þannig um áratugaskeið? Er eitthvað við núverandi aðstæður sem kallar á að það sé farið að eyða stórfé í eitthvert nýmæli hér sem kallast stjórnlagaþing þegar ástandið er eins og það er í efnahagsmálum þjóðarinnar? Er eitthvað sem rekur á eftir því að taka þetta mál fram fyrir öll hin mikilvægu hagsmunamál í atvinnumálum og málefnum venjulegra fjölskyldna á Íslandi? Er eitthvað sem kallar á það að taka þetta mál fram fyrir í því efni eins og sakir standa?

Svarið við því er nei, það er ekkert sem kallar á það. Það er tóm vitleysa eins og sakir standa.

Hæstv. forsætisráðherra hefur setið á þingi í 31 ár og er fyrsti flutningsmaður þessa máls. Annar flutningsmaður málsins, hæstv. fjármálaráðherra, hefur setið á þingi í 26 ár. Samtals hafa þau setið hér á Alþingi í 57 ár. Með þá reynslu á bakinu telja þau að nú sé rétt að taka þetta vald af þinginu. Ekki er nú hátt risið á þeirri afstöðu. Þetta er eitt helsta verkefni Alþingis og þjóðþinga um allan heim, að sjá til þess að þjóðin hafi skynsamleg grundvallarlög. Auðvitað, eins og forsætisráðherra nefndi, hefur kosningalögum og kjördæmaskipan oft verið breytt — og hefur það ekki alltaf tekist? Hefur ekki alltaf verið samstaða um það? Ég man ekki betur en það hafi ævinlega verið svo þótt fólk hafi verið misjafnlega ánægt með það og sumir þingmenn dottið út af þingi fyrir vikið, eins og forsætisráðherra vék að.